Mesta fjölgun íbúa frá árinu 1735

Á síðasta ári fjölgaði landsmönnum um 11.510 manns samkvæmt því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Er það mesta fjölgun á einu ári og ná tölur Hagstofunnar þó allt aftur til ársins 1735.

Fjölgunin er borin uppi af innflutningi fólks. Störfum erlendra ríkisborgara fjölgaði um tæplega 7.924 á árinu og til viðbótar fengu 3.591 alþjóðlega vernd. Störfum í einkennandi greinum ferðaþjónustu fjölgaði um 3.017 og um 2.128 í atvinnugreinum iðnaðarins (þar af 1.272 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð).

Fæddir umfram dána skýra aðeins 15% af fjölgun ársins 2022. Aðfluttir umfram brottflutta skýrir 85% af fjölguninni. Fleiri Íslendingar fluttu frá landinu en til þess og fækkaði íbúum vegna búferlaflutninga Íslendinga um 577.

Þá segir í nefndarálitinu að mannfjölgunin hafi í raun verið helsti drifkraftur hagvaxtar undanfarin ár, en framleiðnivöxtur hafi ekki verið upp á marga fiska. Engu að síður hafi laun hækkað mikið „en á meðan framleiðni heldur ekki í við launahækkanir til lengri tíma skapast kjöraðstæður fyrir verðbólgu“.

DEILA