Magnús Sigurðsson fæddist þann 4. júní 1906 á Geirseyri i Patreksfirði.
Foreldrar hans voru Sigurður Magnússon, f. 1866, d. 1940, læknir á Patreksfirði, Seyðisfirði, Ólafsfirði og í Reykjavík, og k.h. Esther Jensen, f. 1867, d. 1935, dóttur Lauritz Jensen, hótelhaldara og bæjarfulltrúa á Akureyri.
Magnús varð gagnfræðingur frá Flensborg 1922 og búfræðingur frá Hvanneyri 1928. Hann lauk kennaraprófi 1936.
Magnús var kennari í Barðastrandarhreppi 1929-34, við Laugarnesskólann i Reykjavík 1936-55 og varð fyrsti skólastjóri Eskihlíðarskóla árið 1955. Skólinn var stækkaður árið 1960, varð bæði barna- og gagnfræðaskóli og fékk þá nafnið Hlíðaskóli. Magnús lét af störfum þar árið 1969.
Magnús starfaði mikið að félags- og barnaverndarmálum. Hann sat í barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1950 til 1957, var varamaður í Barnaverndarráði Íslands frá 1948 og aðalmaður frá 1957 til dauðadags árið 1974.
Magnús átti einna mestan þátt í því að skapa samfélagsvitund í barnaverndarmálum á Íslandi því á árunum upp úr 1960 ferðaðist hann um með kvikmyndina „Úr dagbók lífsins“, sem hann framleiddi og sýndi á tugum staða um land allt. Í tengslum við sýningu myndarinnar flutti hann fyrirlestra um barnavernd og aflaði fjár til „Hjálparsjóðs æskufólks sem hann stofnaði 1964 til þess að „bæta böl barna og unglinga, sem í raunir rata og flýta fyrir byggingu heimila fyrir afvegaleidda æsku“. Hann sat í skólanefnd Vinnuskóla Reykjavíkur og í stjórn Landsmálafélagsins Varðar.
Magnús Sigurðsson var kvæntur Sigríði Bjarneyju Einarsdóttur frá Hreppsstöðum á Barðaströnd, f. 13.6. 1912, d. 27.11. 1988, húsfreyju.
Börn þeirra:
Sigurður, f. 1934, d. 2009, rafvirkjameistari, Esther, f. 1935, d. 1999, hjúkrunarfræðingur, og Hrefna María, f. 1939, ljósmóðir, bús. á Hóli í Kelduhverfi.
Magnús Sigurðsson lést þann 22. október 1974.