Fuglavernd: miklar áhyggjur af aðgerðum Ísafjarðarbæjar gegn kríuvarpi

Fuglavernd hefur ritað Ísafjarðarbæ bréf og komið á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð eins og segir í því. Bent er á að krían er friðaður fugl og bannaðar eru með lögum veiðar og aðrar aðgerðir sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu.

Fuglavernd gerir alvarlegar athugasemdir við það að raska kríuvörpum og hvetur Ísafjarðarbæ eindregið til að endurskoða aðgerðir sínar gegn kríunni. Fuglavernd segir að það geti sýnt því vissan skilning að sveitarfélagið vilji bregðast við óánægju sumra íbúa með atferli kríunnar í og við varpstaði. „Hins vegar er það svo að í öllum aðgerðum á vegum sveitarfélagsins ætti ekki einungis að líta til hagsmuna bæjarbúa, heldur einnig hagsmuna kríunnar. Þá hefur Fuglavernd fengið fjölda ábendinga frá íbúum á Ísafirði sem blöskrar framganga sveitarfélagsins, svo ljóst er að ekki er samhugur innan sveitarfélagsins um þetta mál. Þess má geta að ástæðulaust er að óttast kríuna, og vel er hægt að verjast varnarflugi hennar með einföldum aðgerðum, s.s. að klæðast mjúku höfuðfati.“

Segir Fuglavernd mikilvægt er að finna lausn sem allir geta sætt sig við, og taka um leið mið af friðunar- og verndarstöðu kríunnar. Sú lausn gæti t.d. falið í sér að laða kríu frekar að hentugum stöðum þar sem hún veldur ekki ónæði, í stað þess að fæla hana frá þeim stöðum sem hún er óvelkomin.

Fuglavernd býður fram krafta sína við í samvinnu við Náttúrustofu Vestfjarða, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands að aðstoða Ísafjarðarbæ í að finna hentuga lausn og miðla fræðslu til íbúa.

Bæjarráð ítrekaði fyrri afstöðu sína sem er að reynt hafi verið að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar og fól bæjarstjóra að halda áfram samtali við Náttúrustofu Vestfjarða auk Fuglaverndar.

DEILA