Frá Hörgshlíð í Mjóafirði yfir í botn Reykjarfjarðar
Laugardaginn 1. júlí
Fararstjórn: Þorgerður Kristjánsdóttir og Hermann S. Gunnarsson
Mæting kl. 9 við Bónus
Gengið verður upp frá Hörgshlíð eftir grófum jeppaslóða upp á fjallsbrún. Þá tekur við gömul gönguleið sem fylgt er að Vatnsfjarðarseli. Þar verða skoðaðar bæjartóftir og að því loknu gengið áfram yfir í Reykjarfjarðardal þar til komið er niður í botn Reykjarfjarðar. Á leiðinni verður gengið á milli tveggja allstórra vatna, Fremra- og Neðra – Selvatns, sem eru á fjallinu á milli Mjóafjarðar og Ísafjarðar. Að norðanverðu við Fremra – Selvatn gengur fram mjór tangi sem nefndur er Grettistangi. Munnmæli herma að þar hafi bændur náð að fanga Gretti Ámundarson og ætlað að hengja hann. Það varð honum hins vegar til lífs að Þorbjörg digra í Vatnsfirði var á leið til sels og bjargaði honum frá svo smánarlegum dauðdaga. Eftir það var Grettir um tíma í Vatnsfirði og eru tvö örnefni þar við hann kennd. Þessi örnefni eru Grettishjalli í norðvesturátt frá Vatnsfjarðarbæ en á brún hans er stór varða sem kölluð er Grettisvarða.
Að göngu lokinni er aldrei að vita nema komið verði við í Reykjanesi til að hvíla þreytta, auma, stirða eða slappa fætur í sundlauginni og/eða pottinum þar. Þá er auðvitað tilvalið að spjalla saman og njóta um leið góðra veitinga í framhaldi af því í veitingasalnum ef þess er kostur.
Vegalengd: 14-15 km, áætlaður göngutími 5 – 6 klst., hækkun upp í um 300 m hæð.
Séð niður í Mjóafjörð en þaðan byrjar gangan upp frá Hörgshlíð.
Nefndin