BSRB: verkfall á Ísafirði

Leikskólinn Sólborg. Mynd: Ísafjarðarbær.

Félagar í stéttarfélaginu Kili sem starfa í leikskólum og á bæjarskrifstofu Ísafjarðarbæjar hafa hafið verkfalls frá og með 5. júní 2023 en Kjölur er aðildarfélag innan BSRB.

Í frétt um verkfallið á vefsíðu Ísafjarðarbæjar segir að viðbúið sé að starfsemi leikskólanna skerðist töluvert fyrir vikið, fyrir utan á Grænagarði á Flateyri þar sem ekkert starfsfólk er skráð í Kjöl. Þjónusta á bæjarskrifstofum skerðist að mestu innanhúss og til stofnana bæjarins og ættu íbúar því ekki að finna jafn mikið fyrir því.

Samkvæmt upplýsingum á vef BSRB stendur verkfallið frá 5. júní til 5. júlí á báðum þessum vinnustöðum.

Samningafundur stóð fram á nótt en lauk án niðurstöðu. Af hálfu BSRB er því haldið fram að sveitarfélög landsins séu að mismuna starfsfólki sínu, „fólki sem vinnur sömu eða sambærileg störf, jafnvel inni á sömu vinnustöðum, með þeim afleiðingum að sumir eiga að sætta sig við 25% minni launahækkun en aðrir. Þannig er starfsfólki gert að horfa upp á það að vinnufélagar þeirra, í nákvæmlega sömu vinnu, fái launahækkun frá 1. janúar, en það sjálft ekki fyrr en 1. apríl.“

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun og þar segir að BSRB hafi hafnað á árinu 2020 þeim kjarasamningi sem gerður var við Starfsgreinasambandið og gildir út september 2023 og þess í stað gert annan kjarasamning með styttri gildistíma sem lauk í lok mars. Fyrir vikið hafi ekki verið í BSRB samningnum kauphækkun 1. janúar sem Starfsgreinasambandið fékk.

Deilt er um launamuninn þessa þrjá fyrstu mánuði ársins þar sem BSRB krefst hækkunar en Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga segir það ekki koma til greina þar sem þá hafi verið kjarasamningur í gildi milli aðila og hann sé bæði efndur og tíminn liðinn.

Segir í yfirlýsingu samninganefndarinnar:

„Það er ljóst að tveir kjarasamningar sömu samningsaðila geta ekki verið í gildi á sama tíma (í þessu tilfelli fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs). Þegar talað er um afturvirkni við kjarasamningagerð á það almennt við þegar að kjaraviðræður hafa staðið yfir í nokkurn tíma og verið er að tryggja að samningur taki við af samningi.  Hins vegar er ekki um að ræða að nýr samningur geti verið afturvirkur inn á gildistíma þess samnings sem er liðinn og hefur verið að fullu efndur af hálfu sveitarfélaga.“

Ennfremur kemur fram:

„Samninganefnd sambandsins hefur ítrekað lagt fram ný tilboð sem forysta BSRB hefur hafnað en það síðasta inniheldur í megin atriðum eftirfarandi:

  • 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa á mánuði frá 1. apríl 2023, sem nær til um helmings félagsmanna.
  • 55.700 kr. persónuuppbót þann 1. maí 2023.
  • 130.900 kr. persónuuppbót þann 1. desember 2023.

Sambandið hefur á undanförnum vikum skrifað undir kjarasamninga við fjölda stéttarfélaga. Meðal annars hefur verið skrifað undir samninga m.a. við 11 aðildarfélög BHM, Eflingu, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara.“

Vísar samninganefnd sambandsins allri ábyrgð á verkföllunum á BSRB.

DEILA