Arctic Fish: leyfi fyrir Djúpið auglýst og framkvæmdir við nýja sláturhúsið

Í gær var byrjað að grafa fyrir sjótökulögninni utan við brimbrjótinn. Myndir: aðsendar.

Í gær var margt að gerast hjá Arctic Fish. Leyfið fyrir 8.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi voru auglýst, byrjað var að grafa fyrir sjótökulögn í Bolungavík fyrir nýja sláturhúsið og dælt var sjó inn í það til þess að prófa búnaðinn í húsinu. Á morgun verða vinnslulínur hússins settar í ganga og prófað að slátra fiski. Eru komar öflugar gröfur og prammar frá Noregi til þess að grafa fyrir sjótökulögninni, sem verður um eins km löng.

Bæði Umhverfisstofnun og Matvælastofnun auglýstu í gær leyfi til Arctic Fish til eldis á 8.000 tonnum af eldislaxi þar af 5.200 tonnum af frjóum laxi. Kemur leyfið í stað annars leyfis sem er fyrir 5.300 tonn af regnbogasilungi. Leyfið nær til sjókvíaeldis á þremur stöðum í Djúpinu. Gefinn er mánuður til þess að gera athugasemdir en að honum loknum verður að lokinni skoðun á þeim verður leyfið gefið út.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish segir að stefnt sé að því að setja út seiði í haust. Gangi það eftir yrðu sett út um allt að einni milljón seiða í kvíar á Sandeyrar eldissvæðinu. Sá lax gæti orðið um 5.000 tonn í sláturstærð eftir hálft annað ár eða svo.

Upphaflega var áformað að setja út seiði nú í vor en af því getur ekki orðið vegna seinkunar á útgáfu leyfanna sem stafar af ákvörðun um að vinna svonefnt áhættumat siglinga. Fyrir vikið seinkar fyrstu slátrun frá 2024 til 2025.

Dráttarbátur ýtir pramma með gröfu út höfnina í Bolungavík.
Enn eru miklar framkvæmdir í gangi við sláturhúsið.
Starfsmenn Arctic Fish vinna við uppsetningu tækja og búnaðar.

DEILA