Hafnarsjóður Vesturbyggðar var rekinn með myljandi hagnaði á síðasta ári. Heildartekjur ársins námu 362 m.kr. og hagnaður ársins þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta og fjármagnskostnaðar varð 168 m.kr. Um 46% af öllum tekjum ársins standa eftir sem hagnaður.
Framkvæmt var fyrir 211 m.kr. í höfninni og að frádregnum kostnaðarhlut ríkisins, sem var 96 m.kr., var hlutur hafnarinnar í framkvæmdunum 116 m.kr. Þá stóðu samt eftir 52 m.kr. af hagnaðinum þegar greiddur hafði verið hlutur hafnarinnar í framkvæmdunum. Afborgarnir lána hafnarsjóðs á síðasta ári voru 27 m.kr. og átti hafnarsjóður vel fyrir þeim og reynadar 25 m.kr. í afgang.
Langstærstur hlutur tekna hafnarsjóðs voru aflagjöld af eldisfiski. Þau voru samkvæmt upplýsingum frá Vesturbyggð 195,3 m.kr. eða 54% af öllum tekjum hafnarinnar. Önnur aflagjöld en af eldisfiski námu 37,4 m.kr. Aflagjöldin í heild voru 232,4 m.kr. Eldisfiskurinn gaf því 84% af öllum aflagjöldum.
Bæjarins besta hefur ekki upplýsingar um heildar tekjur hafnarsjóðs af eldisfiski, en greidd eru fleiri gjöld en aflagjöld, en ljóst er að tekjur hafnarsjóðs af fiskeldinu eru uppistaðan í tekjunum og skýra hina einstaklega góðu afkomu hafnarsjóðs.