Lengjudeildin í knattspyrnu karla hófst um helgina. Vestri ferðaðist til Akureyrar og lék við Þór í Boganum. Leikurinn var jafn og segir Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnuráðs meistaraflokks að liðið hafi ekki átt skilið að tapa leiknum, ne það varð fyrir því óláni að missa mann af velli og þurfti að spila einum manni færri síðasta hálftíma leiksins. Þór fór með sigur af hólmi 2:1, en jafnt í leikhléi 1:1.
Næsti leikur liðsins verður á laugardaginn á Ísafirði. Spilað verður á grasvellinum á Torfnesi og er það óvenjusnemma sem völlurinn er leikfær að vori. Þá koma Skagamenn í heimsókn og verður það eflaust hörkuviðureign.
Þjálfari liðsins er Davíð Smári Lamude. Samúel sagði að Vestri væri með góðan leikmannahóp en þó minni en í fyrra og að hann væri bjartsýnn á gott gengi liðsins í sumar. Sagðist hann hafa trú á þjálfarateyminu.
Hann sagði hins vegar að aðstöðuleysis hái liðinu og það sé greinilega á eftir öðrum liðum, rétt eins og fyrri vor. Honum líst vel á fyrirhugaðar aðgerðir á Torfnesi þar sem setja á gervigras á völlinn í haust, en sagði þó þann böggul fylgja skammrifi að ekki verða hitalagnir settar undir gervigrasið. Það gerði það að verkum að ekki yrði hægt að æfa á vellinum yfir veturinn. Hitinn myndi skipta sköpum varðandi aðstöðuna fyrir knattspyrnuna.