Þverun Þorskafjarðar með nýrri brú er eitt af stærri verkum Vegagerðarinnar og er hluti af nýjum vegi um Gufudalssveit. Tilboð í verkið voru opnuð í febrúar 2021 og í framhaldinu samið við lægstbjóðanda Suðurverk ehf. Tilboðsfjárhæðin var liðlega 2,2 milljarðar króna. Verkinu á að vera lokið 30. júní 2024, eða eftir rúmlega ár.
Í siðustu viku hélt Vegagerðin sérstaka ráðstefnu um brúargerð. Reynir Georgsson á umsjónardeild Vestursvæðis Vegagerðarinnar fjallaði um byggingu brúar yfir Þorskafjörð sem nú er á lokametrunum.
Fram kom í erindi Reynis að framkvæmdin hafi gengið vel einkum vegna þess að náttúruvernd og sigtími fyllinga, sem mestu ráða um framkvæmdatíma hafa unnist að vonum. Fyllingar og staðarval brúarstæðis hafa tryggt vatnsskipti, lágmarkað straumhraða og sigtími fyllinga hefur fylgt sigspám.
Mikil steypa fer í brúna eða um 2.700 rúmmetrar og 173 tonn af járni.
Brúin er 260 metra löng og stendur á sjö stöplum. Allir stöplar hvíla á niðurreknum steyptum staurum. Undir hverjum landstöpli eru 25 staurar, en 46 staurar undir hverjum millistöpli. Hver staur skiptist í 3 staura og alls voru reknir niður 7,7 km af staurum.
Niðurstaða Reynis Georgssonar var að framkvæmdin hafi gengið að vonum og eftir stæði fallegt brúarmannvirki. Verklok samkvæmt samningi eru eftir ár eða í lok júní á næsta ári og ekki annað að sjá en að það muni ganga eftir.