Sveitarstjórn Strandabyggðar er ósammála fræðslunefnd sveitarfélagsins um leiðir til að bregðast við myglu í Grunnskólanum. Meirihluti fræðslunefndarinnar, þrír af fimm nefndarmönnum, vilja skoða af fullri alvöru „að byggja nýtt hús sem gæti verið heppilegra og hagkvæmara í rekstri í ljósi þess hversu gamalt og viðhaldsfrekt núverandi húsnæði er“. Þá segir í rökstuðningi að væri nýtt húsnæði staðsett við íþróttamiðstöð mætti leggja af akstur með börn innanbæjar og nýta skólatíma þeirra betur. Vilja nefndarmennirnir að kostnaðameta þennan kost til framtíðar líkt og aðra kosti sem Efla setti fram í skýrslu sinni um ástand grunnskólans.
Þorgeir Pálsson, oddviti, sem jafnframt er sveitarstjóri, bókaði á sveitarstjórnarfundi daginn eftir að hann teldi óraunhæft að byggja nýjan skóla sem sveitarfélagið hefur ekki fjármagn til.
Varð það niðurstaða sveitarstjórnar að semja við fyrirtækið Litla Klett um eftirtalda verkþætti í uppbyggingu grunnskólans:
a. Klæðning tekin af húsinu
b. Dúkar teknir upp
c. Veggir í smíðastofu, tónlistarherbergi og við vesturgafl skólans verði opnaðir og ástand metið.
Þá var samþykkt að hefja undirbúning að verðkönnun meðal verktaka á svæðinu og næsta nágrennis, til að fá tilboð í eftirtalda verkþætti:
a) Lokun og frágangur milli skólaeininga
b) Málun eftir að búið er að lofta, sótthreinsa og undirbúa veggi fyrir málun
c) Dúklagning á gólf í yngri hluta grunnskólans
d) Uppsetning nýrra innihurða í yngri hluta skólans
e) Viðgerð og/eða skipti á gluggum eftir því sem á.
Frekari verkþættir eru í mótun, og taka mið af ástandi byggingarinnar. Verður leitað verðhugmynda í þá á síðari stigum.
Þessi afgreiðsla var ekki óumdeild og minnihluti sveitarstjórnar bókaði að þessi aðferð að velja eitt fyrirtæki án þess að aðrir hafi fengið sama frest til að leggja fram verðtilboð í verkhluta stríði gegn innkaupareglum Strandabyggðar. „Einnig stríðir það gegn lögum um opinber innkaup að ætla að búta í sundur verkþætti þannig að komist verði fram hjá að verkið í heild fari í útboð. Miðað við kostnaðarmat EFLU er alveg ljóst að viðgerðir á skólahúsnæðinu fara langt yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem eru bæði í innkaupareglunum og lögunum.“