Strandabyggð: oddviti neitar ítrekað að taka mál á dagskrá

Þorgeir Pálsson. Mynd: visir.is

Þorgeir Pálsson, oddviti Sveitarstjórnar Strandabyggðar hefur á tveimur síðustu fundum sveitarstjórnar neitað því að setja á dagskrá mál frá minnihluta sveitarstjórnarinnar. Á fundi sveitarstjórnar í gær hafnaði oddviti því að taka á dagskrá mál frá sveitarstjórnarmönnum A listans þar sem lagt er til að sótt verði um framlengingu á verkefninu Sterkar Strandir.

Þorgeir Pálsson vísar í 10. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar þar sem kveðið er á um valdsvið framkvæmdastjóra/oddvita við skipulag funda. Þorgeir segist einnig hafa lögfræðiálit hvað þetta varðar sem staðfestir ótvírætt vald framkvæmdastjóra/oddvita til að ákveða dagskrá fundar.

Í bókun meirihluta Strandabandalagsins í gær segir að skýrt komi fram í fyrrgreindum samþykktum að það er oddviti sem ákveði dagskrá funda og eru fulltrúar A lista hvattir til að leita lögfræðilegs álits, máli sínu til stuðnings.

Þá segir í bókuninni að „Frekari órökstuddum aðdróttunum í garð oddvita um þetta mál, verður mætt með aðstoð lögfræðinga.“

Í bókun minnihlutans, A lista, segir að eftir sveitarstjórnarfundinn í apríl sl hafi þeir ákveðið leita til Björns Jóhannessonar, hæstarréttarlögmanns. Í niðurstöðu Björns segir: „Hver og einn sveitarstjórnarmaður á rétt á því að mál sé sett á dagskrá sveitarstjórnarfundar enda séu uppfyllt eftirtalin skilyrði: 1) málið falli undir verksvið sveitarstjórnar og varði hagsmuni þess eða verksvið. 2) ósk þar að lútandi hafi borist framkvæmdastjóra sveitarfélagsins skriflega a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund. Víkja má frá þessu ef 2/3 hluti fundarmanna á fundi sveitarstjórnar samþykkja að málið sé tekið fyrir á viðkomandi fundi.“ 

„Það er því alveg skýrt að með því að neita sveitarstjórnarmönnum að setja mál, löglega fram borin, á dagskrá sveitarstjórnarfundar brjóta oddviti og meirihluti T-lista sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 og samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar.“

DEILA