Steinshús við Nauteyri á Langadalsströnd í Ísafjarðardjúpi verður opið frá 8. júní.
Opið er frá kl. tíu á morgnana til átján á kvöldin alla daga vikunnar frá 8. júní til 1. september.
Í Steinshúsi er opin veitingastofa í þrjá mánuði yfir sumartímann. Á matseðlinum er kjötsúpa, gæðakaffi, heitt súkkulaði, heimabakað brauð, kökur og vöfflur. Hægt er að versla sultur, handverk, sápur og krem úr héraði á staðnum.
Þráðlaust net á staðnum.
Samkomuhúsið á Nauteyri eyðilagðist í eldi árið 2002, og var það endurbyggt og breytt því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr. Það er sjálfseignarstofnunin Steinshús ses. sem annaðist allar framkvæmdir á staðnum. Stærð Steinshúss er um 150 m² og skiptist þannig að íbúðarhluti er um 50 m² og safnhluti um 100 m². Framkvæmdum við endurgerð byggingarinnar er nú lokið. Safnið var opnað með viðhöfn þann 15. ágúst 2015 og veitingarekstur hófst í Steinshúsi í lok maí 2016.
Í safnhlutanum er innréttað herbergi með munum sem minna á sögu Steins og eru nokkrir munir fengnir frá erfingjum skáldsins. Jafnframt er þar sögusýning með endurgerðum handrita og bóka sem Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn hefur séð um að útbúa. Einnig má þar hlýða má á upplestur skáldsins og tónlist við ljóð hans. Í salnum er allmikið safn bóka (um 800 bindi) sem gefið hefur verið til safnsins og þar er talsvert af húsgögnum. Fræðimannsíbúðin er búin öllum nauðsynlegum innréttingum, húsgögnum, tækjum og búnaði.