Síðasta vetrardag héldu konur í slysavarnardeildinni Unni á Patreksfirði og slysavarnardeildinni Gyðu á Bíldudal að venju sameiginlegt skemmtikvöld. Að þessu sinni var það haldið í Félagsheimilinu á Patreksfirði og slysavarnarkonur frá Bolungavík komu í heimsókn og skemmtu sér með þeim.
Höfðu konurnar skemmt sér saman á Landsmóti Slysavarnadeilda í Hveragerði s.l haust og ákváðu að hittast aftur.
Að sögn Sólrúnar Ólafsdóttur, formanns deildarinnar á Patreksfirði komu gestirnir frá Bolungavík daginn eftir í kjúklingasúpu heim til hennar þar sem voru fleiri Unnar konur og fóru síðan saman til Bíldudals þar sem Gísli Ægir á Vegamótum hitti þær og tók lagið. „Síðan fylgdum við þeim nokkrar að Dynjanda og fengum orkuna úr þessum fallega fossi áður en við keyrðum að Mjólká þar sem sonur minn Ólafur Byron tók á móti okkur með fróðlega kynningu á starfsemi virkjunarinnar. Eftir spurningar spjall og kaffisopa var komið að kveðjustund og slysavarnakonur héldu heim á leið. Bolungarvíkurkonurnar keyrðu innandyra lengst af leiðinni þrenn göng á meðan við hinar keyrðum heiðarnar heim.“
Myndir: Fanney Inga Halldórsdóttir og Petrína Sigrún Helgadóttir.