Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 26. – 29. maí 2023.
Skjaldborg er uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi komi saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.
Dagskráin í Skjaldborgarbíó verður fjölbreytt og auk heimildamyndaveislu og verða kynnt verk í vinnslu, Kvikmyndasafn Íslands sýnir perlur úr sínu safni og Friðgeir Einarsson sýnir fyrirlestrarverkið blessbless.is. Pallborðsumræður verða haldnar í bíóinu um framtíð íslenskrar heimildamyndagerðar þar sem Gísli Snær Erlingsson, nýr forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Margrét Jónasdóttir, aðstoðardagskrárstjóri RÚV og heimildamyndahöfundar og framleiðendur skeggræða heitustu málefnin í heimildamyndafaginu.
Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru Corinne van Egeraat og Petr Lom, heimildamyndahöfundar og framleiðendur ZINDOC. Mannréttindi eru þeirra helsta viðfangsefni og dæmi um það er Myanmar Diaries sem kom út 2022 og hefur unnið til fjölda verðlauna.
Allar frumsýndar myndir keppa um áhorfendaverðlaunin Einarinn, dómnefndaverðlaunin Ljóskastarann og hvatningarviðurkenningu dómnefndar. Með Einarnum og Ljóskastaranum fylgir veglegt verðlaunafé í formi þjónustu frá tækjaleigunni Kukl og eftirvinnslufyrirtækinu Trickshot.
Á laugardagskvöldinu heldur Lotto tónleika og DJ sett. Lottó semur lög sem snúast um dagdrauma, vonlaus skot og langar nætur úti á lífinu. Á lokakvöldi Skjaldborgar heimsækir tvíeykið DJ Ívar Pétur og Hermigervill Félagsheimili Patreksfjarðar sem TWIN TWIN SITUATION á lokakvöldi Skjaldborgar. Í farteskinu verða þeir tvíburar með stútfullar partýtöskur af danstónlist!
Hátíðarpassi veitir aðgang að allri dagskrá hátíðarinnar, sjávarréttaveislu, plokkfiskboði kvenfélagsins, partýi á laugardagskvöldinu, lokapartý og aðgang í sundlaugina og á tjaldstæðið alla helgina. Sala hátíðarpassa fer fram á tix.is.
Eftirfarandi 17 myndir verða frumsýndar á hátíðinni:
Heimaleikurinn
Leikstjóri: Smári Gunnarsson, Logi Sigursveinsson
Framleiðandi: Stephanie Thorpe, Elfar Aðalsteins, Heather Millard, Freyja Kristinsdóttir
Framleiðslufyrirtæki: Silfurskjár
SKULD
Leikstjóri: Rut Sigurðardóttir
Framleiðandi: Rut Sigurðardóttir, Dögg Mósesdóttir
Framleiðslufyrirtæki: Bíóbúgí og Northern Wave Productions
Soviet Barbara – The story of Ragnar Kjartansson in Moscow
Leikstjóri: Gaukur Úlfarsson
Framleiðandi: Gaukur Úlfarsson, Guðrún Olsen, Guðni Tómasson, Freyr Árnason, Kristín Ólafsdóttir
Framleiðslufyrirtæki: Ofvitinn
Hlemmur Mathöll
Leikstjóri: Óli Hjörtur ÓIafsson
Framleiðandi: María Sif Daníelsdóttir
Tarfurinn
Leikstjóri: Helga Dís Hálfdanardóttir
Framleiðendur: Helga Dís Hálfdanardóttir, Ágústa Margrét Jóhannsdótir
Skessusystur
Leikstjóri: Halla Mía
Framleiðandi: Halla Mía
Konni
Leikstjórar: Þorbjörg Jónsdóttir og Lee Lynch
Framleiðendur: Þorbjörg Jónsdóttir og Lee Lynch
Skynjanir
Leikstjóri: Fanney Björk Ingólfsdóttir
Framleiðandi: Fanney Björk Ingólfsdóttir
Hvar ert þú nú?
Leikstjóri: Steiní Kristinsson
Framleiðandi: Steiní Kristinsson
A portrait of my sister on fire
Leikstjóri: Gabríel Elí Jóhannsson
Framleiðandi: Gabríel Elí Jóhannsson
Super Soldier
Leikstjóri: Arna Tryggvadóttir
Framleiðandi: Arna Tryggvadóttir
Fjárlög veiranna
Leikstjóri: Herbert Sveinbjörnsson
Framleiðandi: Margrét Hrafnsdóttir
Clair de lune
Leikstjóri: Júlía Óskarsdóttir
Framleiðandi: Júlía Óskarsdóttir
Á ekki bara að henda þessu?
Leikstjóri: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Framleiðandi: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Hvar endar þetta?
Leikstjóri: Valka – Valborg Salóme Ingólfsdóttir
Framleiðandi: Valborg Salóme Ingólfsdóttir
Mamma
Leikstjóri: Inga Óskarsdóttir
Framleiðandi: Inga Óskarsdóttir
Uppskrift: Líf eftir dauðann
Leikstjóri: Bergþóra Ólöf Björnsdóttir
Framleiðandi: Bergþóra Ólöf Björnsdóttir
Aðstandendur Skjaldborgar vilja koma sérstökum þökkum á framfæri til sinna helstu bakhjarla, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða en eftirtaldir aðilar styðja þar að auki við hátíðina með ómetanlegu langtíma samkomulagi: Vesturbyggð, Orkubú Vestfjarða og Oddi hf.