Ólafur Ragnar áttræður í dag

Í dag, 14. maí, er Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands áttræður.

Ólafur Ragnar fæddist á Ísafirði, sonur  sonur Gríms Kristgeirssonar hárskera og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar húsmóður. Hann kvæntist 1974 Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur og eignuðust þau tvær dætur. Guðrún Katrín lést 1998. Á sextugsafmæli sínu kvæntist hann Dorrit Moussaieff.

Ólafur Ragnar lauk stúdentsprófi frá MR 1962 og fór til Englands og nam þar stjórnmálafræði og hagfræði við Háskólann í Manchester með BA gráðu 1965. Árið 1970 lauk hann doktorsgráðu í stjórnmálafræði við sama háskóla.

Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn fyrir Alþýðubandalagið landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1978–1979, alþingismaður Reykvíkinga 1979–1983 og alþingismaður Reyknesinga 1991–1996. Hann var formaður Alþýðubandalagsins 1987-1995. Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1980–1983 og fjármálaráðherra 1988-1991.

Hann var kjörinn forseti Íslands í kosningunum 1996 og gegndi starfinu í 20 ár. Ólafur Ragnar Grímsson varð fyrstur forseta til þess að neita að skrifa undir lög frá Alþingi, þegar hann synjaði fjölmiðlalögum ríkisstjórnarinnar um undirskrift árið 2004. Sex árum síðar neitaði hann að undirrita svonefnd Icesave lög og aftur ári síðar löggjöf um sama efni. Í fyrra sinnið voru fjölmiðlalögin afnumin með sérstakri löggjöf en í síðari tvö skiptin fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesavelögin og voru þau felld.

Í dag fer fram sérstakt málþing í Hörpu í tilefni afmælisins, sem nefnist Vegvísar til framtíðar. Verður þar rætt um friðarfrumkvæða þjóðarleiðtoga, orkubyltinguna, Norðurslóðir og loftslagsbreytingar og þjóðmál í framtíðinni.

Fram koma ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, Al Gore fyrrvvaraforseti Bandaríkjanna, öldungardeildarþingmenn í Bandaríkjunum, fyrrv. ráðherra á Indlandi, fyrr, forsætisráðherra Grænlands auk fleiri framámanna. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands flytur lokaávarp.

DEILA