Noregur: 200 milljarðar kr árlega í laxaskatt

Frétt Intra Fish um málið.

Fram kemur í svari norska fjármálaráðuneytisins við fyrirspun frá fjárhagsnefnd Stórþingsins að fyrirhugaður grunnskattur á framlegð í norsku laxeldi muni skila 4 sinnum hærri tekjum til hins opinbera en áður var talið. Upphaflega var lagt af stað með skatt sem myndi skila tæpum fjórum milljörðum norskra króna á ári eða um 50 milljörðum íslenskra króna. Í svari ráðuneytisins nú eru skatttekjurnar áætlaðar 16-17 milljörðum norskra króna á ári eða liðlega 200 milljörðum íslenskra króna.

Frá þessu er greint á vefmiðlinum IntraFish.

Fjármálanefnd norska Stórþingsins hefur lagasetninguna til umfjöllunar og á að skila í næstu viku tillögu sinni að útfærslu á skattinum. Ríkisstjórnin kynnti grunnskattinn þannig að greiddur yrði 35% skattur af tekjum umfram kostnað við framleiðsluna og hlutdeild í fjárfestingu. Miðað hefur frá upphafi verið við að skatturinn skilaði nærri 4 milljörðum norskum krónum á ári.

Fjármálaráðuneytið slær varnagla við útreikningunum og kallar þá tæknilega útreikninga byggða á tilteknum forsendum. Þar er byggt á því að hagnaður af sjókvíaeldinu í Noregi í ár verði 48-57 milljarðar norskra króna sem jafngildir 624 – 741 milljörðum íslenskra króna.

Afkoma í laxeldi er mjög góð, verð eru há, enda eftirspurn mikil eftir vörunni. Norðmenn framleiða um 1,5 milljón tonna á ári og hyggjast a.m.k. þrefalda þá tölu upp í 5 milljón tonna á næstu árum.

Framleiðendur hafa haldið því fram að áætlaðar tekjur af grunnskattinum myndu verða mun hærri en ríkisstjórnin kynnti og hefur fjármálaráðuneytið nú staðfest það. Deilt er um það hversu hár skatturinn eigi að verða og vilja framleiðendur fresta lagasetningunni og skoða áhrifin frekar og leggur Geir Ove Ystmark formaður samtaka framleiðenda til að skatturinn verði á meðan það sem kynnt var eða um 4 milljarðar norskra króna á ári.

DEILA