Magnús Torfi Ólafsson fæddist þann 5. maí 1923 á Lambavatni á Rauðasandi.
Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Sveinsson, bóndi þar, f. 1882, d. 1969, og Halldóra Guðbjört Torfadóttir, f. 1884, d. 1928.
Magnús Torfi varð stúdent frá MA 1944. Hann var blaðamaður við Þjóðviljann 1945-1962 og ritstjóri 1959-1962. Hann var deildarstjóri í Bókabúð Máls og menningar 1963-1971.
Magnús Torfi var alþingismaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1971-1978, menntamálaráðherra 1971-1974 og samgöngu- og félagsmálaráðherra maí til september 1974. Hann var blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar 1978-1989.
Magnús Torfi var formaður sendinefndar Íslands á umhverfismálaráðstefnu SÞ 1972, í sendinefnd Íslands á allsherjarþingi SÞ 1974 og 1975 og á hafréttarráðstefnu SÞ 1976, 1977 og 1978. Hann var formaður stjórnar Þjóðhátíðarsjóðs 1986-1994.
Kona Magnúsar Torfa var Hinrika Kristjana Kristjánsdóttir, f. 1920, d. 2010, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru þrjú.
Magnús Torfi Ólafsson lést þann 3. nóvember 1998.
Morgunblaðið 6. maí 2023.