Lilja Rafney: sakar forystu VG um að etja landssvæðum saman

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþm. Mynd: visir.is

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG í Norðvesturkjördæmi og fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar Alþingis bregst við fréttum af strandveiðum, þar sem smábátasjómenn á Norður- og Austurlandi lýsa óánægju með núverandi fyrirkomulag strandveiða með því að segja það ömurlegt „hvernig forystu VG tekst að etja landsvæðum saman í stað þess að efla Strandveiðar og tryggja öllum Strandveiðisjómönnum 48 daga !“

Lilja Rafney heldur áfram og segir í færslu á Facebook: „VG vill greinilega koma öllu í kvóta með framsali eins og nú stendur til með Grásleppuna og næst verður krafan með sömu rökum gagnvart Strandveiðunum ! Á hvaða vegferð er VG í sjávarútvegsmálum þvert á stefnu VG hingað til. Sorglegt að horfa upp á !“

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp um að taka upp aftur svæðaskiptingu á strandveiðum og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi segir að verið sé að ljúka umfjöllun í atvinnuveganefnd um strandveiðifrumvarp matvælaráðherra og vonast hún „svo sannarlega að við náum saman um að klára það mál hið allra fyrsta.“ Færsla Lilju Rafneyjar eru viðbrögð við yfirlýsingu Bjarkeyjar.

DEILA