Landsnet sækir um lóð undir tengivirki á Bíldudal – úthlutun frestað

Bíldudalur

Landsnet hefur sótt um lóðina Járnhól 8 á Bíldudal og hyggst reisa þar nýtt tengivirki. Skipulags- og umhverfisráð lagði til við bæjarstjórn að samþykkja úthlutun lóðarinnar en vakti jafnframt athygli bæjarstjórnar á því að klára þarf veglagningu að lóðinni skv. deiliskipulagi.

Bæjarstjórnin tók jákvætt í erindið en taldi ekki forsendur til að samþykkja úthlutun lóðarinnar að svo stöddu. Bæjarstjórn frestðir ákvörðun málsins og fól bæjarstjóra að setja sig í samband við umsækjanda vegna veglagningar að lóðinni sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að veglagning að lóðinni hlaupi á einhverjum tugum milljóna og ekki var áætlað í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins að fara í veglagningu á árinu.

„Það þyrfti því að gera viðauka við fjárfestingaráætlun sem við viljum forðast ef hægt er. Við munum kanna hvaða aðkomu Landsnet getur haft að málinu og hvort önnur lóð á svæðinu með minni veglagningu gæti hentað þeim.“

DEILA