Ísafjarðarbær: halli af rekstri í fyrra

Ársreikningur 2022 fyrir Ísafjarðarbæ var lagður fram í bæjarráði í gær og verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fundi síðar í dag.

Halli varð af rekstri A hluta, þ.e. bæjarsjóðs, um 210 m.kr. en af A og B hluta, allri samstæðunni varð hallinn 110 m.kr. Er niðurstaðan þó betri en fjárhagsaætlun ársins gerði ráð fyrir. Fyrir A hlutann var hallinn áætlaður 377 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A-hluta er því 167 m.kr. jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Fyrir A og B hlutann samtals var gert ráð fyrir 150 m.kr. halla.

Skatttekjur námu samtals ríflega 4.488 m.kr. og rekstrartekjur að þeim meðtöldum urðu 6.835 m.kr.

Laun og launatengd gjöld voru 3.315 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 3.330 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2022 var 415.

Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121% en var 129% árið 2021. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%.

Fjárfest var fyrir rúmar 304 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2022 en áætlaðar fjárfestingar voru 440 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að fasteignum og öðrum mannvirkjum Eignasjóðs (um 67 m.kr.), hafnarframkvæmdum (um 134 m.kr.) og fráveituframkvæmdum (um 44 m.kr.).

Á árinu 2022 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 216 m.kr. Handbært fé hækkaði um 30,3 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2022 kr. 324 m.kr.

Skuldir og skuldbindingar A hluta voru í árslok 7.165 m.kr. og A og B hluta samtals 9.433 m.kr.

DEILA