Ísafjarðarbær: endurskoðun aðalskipulags í ólestri

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar að bjóða þurfi út að nýju endurskoðun aðalskipulags Ísafjarðarbæjar. Upphaflega var verkið boðið út sumarið 2019 og samið við Arkis arkitekta. Tilboð þeirra var 19,2 m.kr.

Skilulagslýsing var auglýst í apríl og maí 2020 og haldnir fundir með sjö fastanefndum sveitarfélagsins. Síðan átti að fara fram rýni með fulltrúum fyrirtækja og landeigenda.

Drög að skipulagstillögu, átti síðan að vera tilbúin í nóvember 2021 að þessari rýni lokinni, til að kynna fyrir skipulags‐ og mannvirkjanefnd skv. uppfærðri tímalínu. Þau drög hafa enn ekki borist.

Staða endurskoðunar er á þann veg að það liggja fyrir drög að greinargerð. Í greinargerðinni er búið að taka á sjö köflum.

Vinna við umhverfiskýrslu er ekki hafin samhliða grg. Af fjórum uppdráttum eru komin drög að þéttbýlisuppdrætti, öðrum er ólokið s.s. dreifbýlisuppdráttum norðan og sunnan djúps, ásamt yfirlitsmynd yfir sveitarfélagið.

Í febrúar 2022 var haldinn sameiginlegur vinnufundur fundur nefndanna þ.e. umhverfis- og framkvæmdanefndar og skipulags- og mannvirkjanefndar. Bókuð voru vonbrigði með vinnu ráðgjafa.

Uppfært kl 19:38. Samkomulag er milli aðila að fá ráðgjafarstofuna Alta til samstarfs m.a. vegna reynslu þeirra á þessu sviði. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta horfir því betur með framvindu endurskoðunar aðalskipulagsins.

Hefur fréttinni verið breytt með tilliti til þessara viðbótaupplýsinga.

DEILA