Sendiherra Kanada á Íslandi, Jeanette Menzies, heimsótti Háskólasetur Vestfjarða í gær og ræddi við bæði nemendur og starfsfólk um áframhaldandi og aukið samstarf við kanadískar stofnanir. Farið var í göngutúr um Ísafjörð með nemendum.
Frá þessu er greint á vefsíðu Háskólasetursins.
Nokkuð stór hópur nemenda kemur frá Kanada, sem og kennarar einstakra námskeiða og því tilefni til heimsóknar sendiherrans. Fyrst ræddi Jeanette Menzies við Astrid Fehling, kennslustjóra, og Brack Hale, fagstjóra, um samstarf Háskólaseturs við kanadíska háskóla, m.a. Dalhousie háskóla í Nova Scotia og Memorial háskóla á Nýfundnalandi. Þau voru sammála um samstarfið væri mikilvægt beggja megin Atlantshafsins enda eigi strandbyggðir við og á Norðurheimskautinu margt sameiginlegt og nauðsynlegt að bera þekkinguna á milli.
Mikill áhugi er fyrir því að auka samstarfið, ekki síst á sviðum Sjávarbyggðafræðinnar, og efla samvinnu við vísindarannsóknir. Þá hefur þeirri hugmynd verið kastað fram að doktorsnemar frá Kanada dvelji hjá Háskólasetri um tíma, enda góður vettvangur til rannsókna hvort sem er á sviði stefnu og stjórnunar haf- og strandsvæða eða byggðaþróunar smærri byggða á Norðurslóðum.
Á ferð sinni um bæinn var staðnæmst við Byggðasafnið, Dokkuna, Sundlaugina og Bókasafnið en einnig kíkt við í fiskbúðinni þar sem hópurinn fékk að smakka harðfisk og skoða tanngarð úr Grænlandshákarli. Þá var athugað hvernig bygging stúdentagarðanna gengur.
Myndir: Háskólasetur Vestfjarða.