Háskólasetur Vestfjarða: kallað er eftir erindum á málþing

Málþing í tilefni af 25 ára afmæli fjarkennslu við Háskólann á Akureyri verður haldið föstudaginn 16. júní í Háskólasetri Vestfjarða. Háskólasetur gegnir mikilvægu hlutverki þar sem íbúar Vestfjarða geta nýtt aðstöðu þar til að stunda fjarnám við aðra skóla og sinnir Háskólasetur m.a. fjarprófsþjónustu. Háskólinn á Akureyri hefur nú boðið upp á fjarnám í 25 ár og af því tilefni verður haldið málþingið Háskólanám í heimabyggð í júní. 

Því er kallað eftir ágripum erinda fyrir málþingið en þemað getur verið allt sem tengist fjarnámi og fjarkennslu, s.s. mikilvægi fjarnáms fyrir samfélagið í heild, landsbyggðina og smærri samfélög, þróun fjarnáms og fjarkennslu, uppbygging og þróun fjarnáms við Háskólann á Akureyri sérstaklega, kennslufræði og kennsluaðferðir í fjarkennslu, upplifun og reynsla nemenda og kennara og svo mætti áfram telja.

Almenn erindi og fyrirspurnir í kjölfarið skulu ekki taka lengri tíma en 20 mínútur. Ágrip af erindum
(hámark 250 orð) skulu berast fyrir 8. maí 2023.

Á þessu ári eru liðin 25 ár síðan fjarkennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskólann á Akureyri en haustið 1998 hóf hópur nemenda nám í hjúkrunarfræði í fjarnámi frá Ísafirði. Kennt var samtímis á Ísafirði og Akureyri í gegnum myndfundabúnað.

Vinsamlega sendið ágripin til Mörthu Lilju Olsen, skrifstofustjóra Rektorsskrifstofu Háskólans á Akureyri, (marthalilja@unak.is).

DEILA