Fiskistofa vill ekki heimila endurvigtun á afla strandveiðibáta

Í umsögn Fiskistofu til atvinnuveganefndar Alþingis um svæðaskiptingu strandveiða er fjallað um vandamál við eftirlit á að afmarka mánaðarlegan afla hvers svæðis við það sem ráðstafað er.

Þar segir að þeim sem stunda strandveiðar sé heimilt að halda til veiða 12 daga í mánuði og er hámarkstími á róðri 14 klst. Við vigtun aflans þegar komið er að landi er hámark ísprósentu 3% nema afli sé sendur í endurvigtun.

Niðurstöður endurvigtunar og endanleg aflaskráning kemur oft ekki fyrr en 3 – 5 dögum seinna. Á tímabilinu 1. maí – 31 .ágúst árið 2022 var um 40% landaðs afla vigtaður endanlega á hafnarvog, 60% af öllum lönduðum afla var þar með endurvigtaður.

Til að auðvelda framkvæmd og eftirlit með því að veiðar fari ekki um of fram úr ráðstöfuðu aflamagni hvers mánaðar leggur Fiskistofa til að óheimilt verði að endurvigta afla sem veiddur er á strandveiðum, enda er ekki þörf fyrir að ísa þann afla umfram 3% í ljósi þess að veiðiferðir eiga ekki að fara umfram 14 tíma. Ef 60% afla er sendur til endurvigtunar er ljóst að það verður nær ógerlegt að loka svæðum fyrr en ofmikið hefur veiðst.

Í frumvarpinu er lagt til að fari afli umfram það magn sem ráðstafað var á svæðið í mánuðinum mun sá afli dragast af aflamagni næsta mánaðar

Fiskistofa bendir á í þessu samhengi að töluverð vinna felst í því að fylgjast með veiddum afla niður á svæði sem og lokunar svæða og reiknast til að sú framkvæmd sem lögð er til muni kalla á aukinn mannafla.

Strandveiðar eru stundaðar á sumartíma þegar stofnun er fáliðuð vegna sumarfría og mun stofnunin því þurfa að ráðast í ráðningu á sumarstarfsmanni til að koma að þessum verkefnum.

DEILA