Ferðafélag Ísfirðinga: Meðaldalur – 1 skór

Laugardaginn 3. júní verður næsta ferð Ferðafélags Ísfirðinga. Farið verður í Meðaldal í Dýrafirði.

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.

Mæting kl. 9 við Bónus og kl. 9.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri.

Í Meðaldal er margt forvitnilegt að sjá. Þar er skemmtilegur golfvöllur Þingeyringa í fögrum fjallasal, leifar gamallar vatnsvirkjunar frá upphafi tæknialdar og silfurbergsnáma í botni dalsins svo eitthvað sé nefnt. Það var í kringum 1910 sem miklar framkvæmdir áttu sér stað í botni dalsins er framámenn leituðu að silfurbergi sem í þá tíð var mikið notað í ýmiss konar sjóngler. Náman var 10 – 15 metra djúp og námuopið 2,5 metrar í þvermál fremst en mjókkaði svo inn á við. Töluvert hefur borist af efni inn í námuna svo að í dag er hún  mjög grunn (4 – 6 metrar á dýpt). Er vinnslan var hafin, kom í ljós að efnið var ekki silfurberg heldur skyld steind sem nefnist aragónít.

Gengið eftir ruddum vegslóða langleiðina af leiðinni.

Vegalengd: 10 km, áætlaður göngutími 4 tímar,  hækkun upp í um 120 m.

DEILA