Ársfundur Háskólaseturs Vestfjarða

Peter Weiss forstöðumaður ástamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra fyrir utan nýja bókasafnið í Háskólasetrinu.

Ársfundi Háskólaseturs Vestfjarða lauk fyrr í dag. Fundurinn var haldinn í húsakynnum setursins á Ísafirði.

Fram kom í skýrslu stjórnar að bygging stúdentagarða er stærsta málið sem að er unnið á vegum Háskólasetursins. Um er að ræða tvö hús með samtals 40 litlum íbúðum fyrir nemendur. Heildarkostnaður er um einn milljarður króna og leggja ríkið og Ísafjarðarbæ fram 30% í stofnfjárframlög og auk þess er sérstakt framlag frá Byggðastofnun.

Annað húsið er þegar risið og er stefnt að því að taka það í notkun í september. Seinna húsið er skemmra á veg komið en búið er að steypa plötu og er miðað við að það verði tilbúið í desember.

Þetta skólaár eru 76 nemendur innritaðir í tvær námsleiðir Háskolasetursins, haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði. Um 90 fjarnemendur eru búsettir á Vestfjörðum samkvæmt því sem fram kom í máli Peter Weiss, forstöðumanns Háskólasetursins.

Við Háskólasetrið eru 7,4 stöðugildi og eru 10 starfsmenn á launaskrá. Alls eru um 20 stöðugildi við setrið að meðtöldum útvistuðum störfum.

Heildartekjur Háskólasetursins í fyrra voru 200 m.kr. Helstu útgjaldaliðir voru laun og tengd gjöld 89 m.kr. og verkefna- og námskeiðsgjöld 72 m.kr. Tap varð af rekstri um 1,1 m.kr.

Eignir eru metnar á 122 m.kr. um áramótin og skuldir voru 92 m.kr. Eigið fé var því 30 m.kr.

Kosið var í stjórn og er hún að mestu óbreytt. Harpa Grímsdóttir , Elías Jónatansson sem er formaður og aðrir stjórnarmenn eru Þorsteinn Sigurðsson, Martha Lilja Marteinsdóttir Olsen og Elísabet Gunnarsdóttir.

Úr stjórn gekk Stefán B. Sigurðsson og kom Martha Lilja í hans stað.

Dóra Hlín Gísladóttir er formaður fulltrúaráðsins.

DEILA