Keppendur á næsta US Open í Bandaríkjunum, tennismóti í New Tork sem verður haldið í ágústlok og byrjun september, munu fá eldislax frá Arnarlax að borða meðan á mótinu stendur. Á þessum tíma verður slátrað upp úr kvíum fyrirtækisins við Tjaldanes í Arnarfirði.
Þetta kom fram á fimmtudaginn í kynningu Björns Hembre, forstjóra Arnarlax á afkomu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.
Matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum, sem munu þjóna á mótinu, voru á Bíldudal í síðasta mánuði og þar var þetta ákveðið. Björn sagði þetta ekki mikið magn sem selt hefði verið en það væri mikilvæg viðurkenning á gæðum afurðanna frá Arnarlax.
Lax frá Arnarlax er með ASC-vottun um sjálfbæra framleiðslu.