Súðavíkurhreppur, Míla, Orkubú Vestfjarða og Fjarskiptasjóður hafa náð samkomulagi um að leggja ljósleiðara og þriggja fasa rafstreng alla leið í Hattardal í Álftarfirði til þess að klára verkefnið Ísland ljóstengt í Súðavíkurhreppi og var samningur gerður um það í byrjun árs 2023.
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri segir fyrirhugað að klára þetta í sumar og skiptist kostnaður milli aðila eftir umfangi, þ.e. Súðavíkuhreppur mun leggja til verkefnisins hluta, Fjarskiptasjóður hluta og svo rest vegna jarðvinnu og strenglagningar verður kostnaður Orkubúsins.
Þar sem um er að ræða samning viðskiptalegs eðlis, telur Bragi Þór ekki tímabært að upplýsa, án þess að fyrir liggi samþykki Orkubús Vestfjarða og Fjarskiptasjóðs, um það hvernig kostnaðarskipting er sundurliðuð. Súðavíkurhreppur mun leggja um 2 mkr. í verkefnið eins og það lítur út í dag.