Björn Rósenkranz Einarsson hljómlistarmaður, faðir undirritaðs og systkina hans, fæddist í Reykjavík 16. maí 1923.
Foreldrar hans voru hjónin Einar Jórmann Jónsson, hárskerameistari og tónlistarmaður og Ingveldur Jónína Rósamunda Björnsdóttir húsfreyja og kjólameistari.
Foreldrar Ingveldar voru Elín Björnsdóttir húsfreyja í Reykjavík og Björn Rósenkranz kaupmaður þar.
Einar var sonur hjónanna Ólafar Benjamínsdóttur og Jóns Jónssonar í Hraunkoti í Grindavík.
Ingveldur var annáluð dugnaðar- og atorkukona; hún tók heim til sín sauma. Henni var hugleikið að koma börnunum til mennta í tónlist, sjálf söngvin og spilaði á píanó. Um Einar sagði Jón Halldórsson söngstjóri Fóstbræðra að hann hefði ekki kynnst músíkalskari manni, og Einar hefði gilt einu hvort hann söng tenór eða bassa.
Systkini pabba voru Elín Hulda Rósenkranz, húsfreyja í New York, og Guðmundur Rósenkranz tónlistarmaður.
Björn var í sveit á Grjóteyri í Borgarfirði, á Laugabóli við Ísafjarðardjúp og Borgareyrum undir Eyjafjöllum. Hann var alla ævi íþróttamaður, stundaði ungur frjálsar íþróttir og sundbolta. Hann var Íslandsmeistari í léttvigt í hnefaleikum. Áratugum saman fór hann í sund á hverjum morgni og synti 1000 metra framan af, en síðan lengi 500 metra.
Hann lærði hárskeraiðn og starfrækti um hríð með öðrum rakarastofu í Trípólí-kampi þar sem nú er Háskólabíó. Tónlistarkennarar hans voru Franz Mixa, Karl O. Runólfsson, Árni Kristjánsson, Wilhelm Lanzky-Otto, Jón Þórarinsson, Albert Klahn og Gordon Pulis í New York.
1945 stofnaði hann Hljómsveit Björns R. Einarssonar og stjórnaði henni lengi. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var hleypt af stokkunum 1950 var hann ráðinn 1. básúnuleikari hennar og stóð svo uns hann lét af störfum sjötugur. Þá tók Oddur, sonur hans, við.
Björn kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlistarskólann í Keflavík, Tónlistarskóla FÍH, Klébergsskóla á Kjalarnesi og Grunnskólann í Kjós. Frá 1963 rak hann túnþökufyrirtæki.
Fyrstur manna sá hann um Óskalög sjúklinga í útvarpinu. Hann var heiðursfélagi Lúðrasveitar Reykjavíkur og hlaut gullmerki FÍH. Fyrir framlag til íslenskar djasstónlistar var hann sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.
26. júlí 1947 gékk Björn að eiga Ingibjörgu Gunnarsdóttur næturlæknabílstjóra Ólafssonar kaupmanns í Keflavík og síðar í Reykjavík Ásbjörnssonar í Njarðvík og Vigdísar Ketilsdóttur frá Kotvogi í Höfnum Ketilssonar. Eiginkona Gunnars og móðir Ingibjargar var Ragnheiður Bogadóttir kaupmanns í Búðardal Sigurðssonar og konu hans Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen frá Flatey á Breiðafirði.
Með mömmu eignaðist pabbi eins ákjósanlega eiginkonu og hugsast gat. Hún bar hann á höndum sér í 52 ár. Hann var í senn draumaprinsinn hennar, lífsköllunin, ævistarfið, áhugamálið og tómstundaiðjan.
Þegar ég var púki, eins og sagt er fyrir vestan, leiddi pabbi mig oft við hönd sér um götur bæjarins. Fórum við þá stundum í “að-kreista-hendina” leikinn, en hann fólst í því að pabbi þrýsti hendina á mér í einhverjum ákveðnum rytma, sem ég reyndi að leika eftir við hendina á honum. Höfðum við ómælda ánægju af þessu. Aftur þótti mér gamanið kárna, þegar hann tók að raula fyrir munni sér laglínur, og það nógu hátt til þess að vegfarendur, sem við mættum, komust ekki hjá því að heyra. Hylltist ég þá til þess að fara yfir á gangstéttina hinum á götunni, og halda þar áfram ferðinni, og þóttist ekki þekkja hann, en hafði þó strangar gætur á honum útundan mér.
Börnin urðu 5: Gunnar, Björn, Ragnar (látinn), Ragnheiður og Oddur. Fyrir hjónaband eignaðist pabbi soninn Jón. Móðir hans var Helga Jónsdóttir.
Björn lést 19. maí 2014, 91ns árs að aldri.
Guð blessi minningu hans.
sr Gunnar Björnsson