Vesturbyggð: stefnt að heimastjórnum í sumar

Ráðhús Vesturbyggðar.

Stefnt er að því að kosning til hemastjórna í Vesturbyggð fari fram í júní eða síðsumars. Upphaflega stóð til að kosið yrði samhliða sveitarstjórnarkosningum í fyrra.

Heimastjórnirnar Vesturbyggðar eru eftirfarandi:
a. Heimastjórn Patreksfjarðar.
b. Heimastjórn Arnarfjarðar.
c. Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandshrepps.

Í síðustu viku samþykkti bæjarráðið að vinna að innleiðingu heimastjórma í samræmi við minnisblað frá Róbert Ragnarssyni, KPMG.

Heimastjórnirnar fara með allmörg verkefni sem tilgreind eru í bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins þar á meðal nokkur til endanlegrar afgreiðslu á sviði skipulagsmála og náttúruverndar. Þá skal heimastjórn skal vinna tillögur til bæjarstjórnar vegna vinnu við stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum sveitarfélagsins.

Gert er ráð fyrir að samráðsfundir með íbúum vegna sameiningarviðræðna milli Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, sem fyrirhugaðir eru í vor, verði nýttir til að kynna heimastjórnarfyrirkomulagið og fram hvaða verkefnum heimastjórn á viðkomandi svæði ætti að sinna. Að líkindum verða það sömu eða sambærileg verkefni og eru í núverandi samþykktum Vesturbyggðar.

DEILA