Hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar segir í bókun að það harmi áhugaleysi Vegagerðarinnar á málefni Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Segir ráðið að Vegagerðin geri lítið úr áhyggjum sveitarfélagsins og svör Vegagerðarinnar við spurningum Vesturbyggðar séu snubbótt.
Þá segir í bókuninni að ef skipið Röst komi til með að leysa Baldur af við siglingar yfir Breiðafjörð muni það vissulega auka öryggi notenda en stórminnka flutningsgetu. Reynsla fyrirtækja á svæðinu sé að oft sé flutningabílum vísað frá vegna plássleysis.
Í svörum Vegagerðarinnar kemur fram að Röst get tekið fimm flutningabíla en í núverandi Baldri komast sex flutningabílar. Hins vegar séu sárasjaldan sex trukkar um borð í Baldri. Í útboðsgögnum er miðað við styrk fyrir 8 ferðum á viku, 9 mánuði á ári.
Í fyrirspurn bæjarstjóra Vesturbyggðar til Vegagerðarinnar er vakin athygli á því að fyrirsjáanlegt sé að flutningar frá laxeldi á norðanverðum Vestfjörðum muni í auknum máli fara um Breiðafjörð og bætast við þá flutninga af sunnanverðum Vestfjörðum sem þegar eru til staðar og hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Búast megi við að það þýði aukna flutninga með Breiðafjarðarferjunni frá því sem nú er.