Sundabakki: kostnaður hækkar um 300 m.kr.

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Hafnarstjórn leggur til breytingar á framkvæmdum við Sundabakka í Ísafjarðarhöfn sem hækka kostnaðinn um nærri 300 m.kr. Hlutur ríkisins í kostnaðaraukanum er um 140 m.kr. og hækkar kostnaður Ísafjarðarbæjar um 155,4 m.kr. Þá er lagt til vegna sandburðar að bæta við fyrirstöðugarði við Norðurtanga sem kostar 30 m.kr. Á móti er frestað framkvæmdum upp á 50 m.kr. Niðurstaðan er viðauki við fjárhagsáætlun hafnarinnar að fjárhæð 135,4 m.kr.

Í breytingunum við Sundabakka er nýr fyrirstöðugarður 140 metra langur í framhaldi af nýja stálþilinu sem þarf til að hægt sé að staðsetja fastsetningar polla fyrir skip sem standa inn fyrir þilið. Kostnaður við hann er 43 m.kr. Stærsti kostnaðurinn er vegna þekju sem steypa á og er hann 205 m.kr. og þar af er hlutur ríkisins 123 m.kr.

Lagt er til að fresta framkvæmdum við malbikun á gámaplani á Ísafirði 20 m.kr. , flotbryggju á Suðureyri 15 m.kr. auk tveggja annarra framkvæmda , samtals 50 m.kr.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að óhjákvæmilegt væri að ráðast í báða fyrirstöðugarðana nú í ár og að framkæmdir við þekjuna hefðu verið á áætlun í fyrra en þá frestað.

teikning af fyrirstöðugarðinum í Sundabakka.

DEILA