Staðardalur: tilboði í vatnsveitu II. áfanga tekið

Súgandafjörður séð til suðausturs: Frá vinstri Suðureyri, Spillir (fjallið), Staðardalur, fyrir miðju fremst bylið Bær siðan eyðijarðirnir Ytri-Vatnadalur og Fremri-Vatnadalur. Vatnadalsvatn. Í hægri kant kirkjustaðurinn Staður og eyðijörðin Staðarhús þar framan við. Ísafjarðarbær áður Suðureyrarhreppur. / Sugandafjordur Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að taka tilboði frá Gröfuþjónustu Bjarna ehf í vatnsveituframkvæmdir í Staðardal og Sunddal í Súgandafirði , II. áfanga framkvæmdanna.

Tilboðið er 15.020.000 kr. eða 70,2% af kostnaðaráætlun sem er 21,4 m.kr.

Þrjú önnur tilboð bárust. Þotan ehf. bauð 16.990.000 kr. Verkhaf bauð 17.575.000 kr. og tilboð Græjað og keyrt ehf. var 27.218.490 kr.

Verkið felur í sér að grafa skurðstæði fyrir 180mm vatnslögn á um 1700 m kafla, frá gatnamótum Staðardalsvegar og heimreiðar á Stað. Sveitarfélagið útvegar aðföng s.s. lagnir og brunna og ekki er gert ráð fyrir því í heildarkostnaði.

Fiskeldissjóður styrkti endurnýjun vatnslagna í Staðardal um 20 m.kr. árið 2021 og um 33,4 m.kr. í fyrra.

DEILA