Orkuþing Vestfjarða: mikil þörf á frekari virkjun og tvöföldun Vesturlínu

Fundarsalurinn var þéttsetinn í Edinborgarhúsinu. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Orkuþing Vestfjarða 2023 var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær. Mikil aðsókn var á þingið og var þéttsetinn fundarsalurinn eða um 80 manns. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða sagði að uppselt hefði verið á orkuþingið. Hún sagði að fram hefði komið að mun meiri orkuframleiðslu þyrfti í fjórðungnum og að aðkallandi væri að tvöfalda Vesturlínu, sem flytur rafmagn til og frá Vestfjörðum. Jóhanna kvaðst ánægð með orkuþingið og sagði mætinguna sýna gríðarlegan áhuga á málefninum og að það væri hugur í Vestfirðingum. Næst væri að bíða eftir skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undir forystu Einars K. Guðfinnssonar um eflingu samfélags á Vestfjörðum. Starfshópurinn skoðar helstu virkjunarmöguleika í fjórðungnum og á að skila af sér fyrir 1. maí næstkomandi. Einar sagði að auka yrði verulega raforkuframleiðslu á Vestfjörðum til þess að mæta núverandi eftirspurn og áformum um orkuskipti.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Í máli Elíasar Jónatansonar, Orkubússtjóra kom fram að af hálfu Orkubús Vestfjarða unnið er að virkjun Kvíslartungu í Selárdal í Steingrímsfirði og hafa verið undirritaðir samningar við landeigendur. Þá er til skoðunar svonefnd Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem yrði að mestu neðanjarðar með litlum umhverfisáhrifum. Mögulegt væri í báðum tilvikum að unnt verði að hefja raforkuframleiðslu um 2030 ef nauðsynleg leyfi fást. Samtals eru þessar tvær virkjanir um 30 – 40 MW að afli.

Orkubúið stendur einnig að jarðhitaleit á Ísafirði og Patreksfirði og vonast er eftir því að fá jarðhita til þess að kynda fjarvarmaveitur staðanna í stað þess að nota rafmagn eins og nú er. Gangi það eftir jafngildir það 10 – 12 MW afli af raforku sem yrði til reiðu til annarra nota. Á síðasta ári var óvenjuslæmt ár þar sem rafmagn var ekki tiltækt og brenndu rafkatlar Orkubúsins 2,1 milljónum lítra af olíu við rafkyntar hitaveitur.

Einar K. Guðfinnsson í ræðustól.

DEILA