Listasafn Ísafjarðar: SJALASEIÐUR – UMBREYTING ÚR TEXTA Í TEXTÍL

Bergrós Kjartansdóttir.

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun sýningar Ísfirðingsins Bergrósar Kjartansdóttur, Sjalaseiður – umbreyting úr texta í textíl. Opnun verður á skírdag, 6. apríl nk. kl.16.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annari hæð í Safnahúsinu Eyrartúni. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Sjalaseiður – umbreyting úr texta í textíl er sýning Bergrósar út frá bók hennar Sjalaseiður. Sjalaseiður er óður til íslensku ullarinnar, íslenskrar náttúru og norrænu goðafræðinnar. Öll sjölin í bókinni eru prjónuð úr íslenskri ull en eru jafnframt sýnd í annarri útgáfu hvað band og liti snertir. Í bókinni eru sögur, ljóð og uppskriftir af sjölum. Hvert og eitt sjal ber nafn og sögu þess forna fyrirbæris sem kveikti hugmyndina að sjölunum. Segja má að hvert sjal sé eins og ljóð sem segir gamla sögu og nýja ásamt því að hlýja eigandanum, vernda hann og gleðja skynfæri hans.

//

Bergrós Kjartansdóttir sleit barnskónum á Ísafirði og er ættuð frá Hornströndum og Jökulfjörðum. Hún lærði bókmenntafræði og þjóðfræði við Háskóla Íslands, er jafnframt menntaður gullsmiður og hefur frá unga aldri hannað flíkur og skart. Hún lærði að vera Landvörður fyrir tveim árum og hefur starfað við það sl. tvö sumur hér á Ísafirði á Gestastofu Hornstranda í hlutastarfi. Núna er hún að byrja að skrifa lokaritgerðina í meistaranámi sínu í íslenskum bókmenntum og menningarfræðum. Sjalaseiður er fyrsta bókin hennar en hugmyndin að þeirri næstu er að komast á koppinn.

DEILA