Ísafjörður: Mamma Nína til sölu

Pizzastaðurinn Mamma Nína ehf. sem staðsettur er að Austurvegi 1, á Ísafirði er til sölu. Feðgarnir Þorsteinn Tómasson og Gunnar Þorsteinsson hafa átt og rekið staðinn frá árinu 2018 og notið vinsælda fyrir góðar pizzur.

Vegna breytinga á högum eigenda hefur verið ákveðið að setja staðinn á sölu, en annar þeirra er á leið til Reykjavíkur í nám með haustinu, og hinn er kominn á eftirlaun. Þorsteinn segir að á þessum tímamótum sé rétti tíminn til þess að draga saman seglin.

Staðurinn er með vínveitingaleyfi III og má hafa opið  til kl. 03:00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og annara almennra frídaga. Mamma Nína er í leiguhúsnæði með mjög sanngjarnri leigu, en öll tæki tól, sem og uppskriftir ásamt þjálfun væntanlegra kaupenda ásamt lager eru með í kaupunum, ásamt viðskiptavild.

Að sögn eigenda er þetta kjörið tækifæri fyrir samheldna einstaklinga sem treysta sér til að vinna sjálfir við reksturinn. Yfir sumartímann hefur verið mikið um að vera á staðnum, en þá hafa eigendur einng boðið upp á súpur og fisk og franskar.  Einnig er hægt að bjóða upp á salad fyrir grænkera.

DEILA