Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar ræddi á síðasta fundi sínum erindi frá Hreinni Hornströndum þar sem farið var fram á að framlag bæjarfélagsins til verkefnisins verði það sama og undanfarin ár, að upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar haldi utanum skráningu í ferðina og Ísafjarðarbær kosti förgun á ruslinu.
Fram kemur að framlag Ísafjarðarbæjar hafi verið mjög mikils virði frá upphafi og þáttaka bæjarfélagsins ein af meginstoðum hreinsunarinnar.
Hreinsunin hefur verið farin fyrir tilstuðlan heimamanna á Ísafirði í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir níu ár í röð eða frá árinu 2014. Samtals hafa safnast 48 tonn af plasti þessi ár, mest megnis plast og netadræsur tengt útgerð en þónokkuð af plasti sem á uppruna sinn að rekja af landi og berst útí sjóinn.
Tilgangur ferðarinnar hefur verið tvíþættur, annars vegar að hreinsa strandlengjur friðlandsins á Hornströndum og vonandi verða öðrum innblástur um að hreinsa sitt nærsvæði. Hins vegar að reyna að fá fólk til þess að huga að neyslu sinni og umgengni með plast, á það bæði við almenning og sjómenn.
Þar sem fyrstu umferð yfir helstu rekastaðina innan friðlandsins er lokið og núþegar hafa Hornvík, Hlöðuvík og Furufjörður verið þrifin í annað sinn. Árið 2023 er áætlað að fara að nýju í Bolungarvík þar sem seinast var hreinsað árið 2018.
Stefnan er hreinsunin sé frá föstudegi til laugardagskvölds. Hreinsaðar yrðu fjörurnar á föstudegi og laugardegi og siglt til baka með ruslið á laugardagskvöldi með varðskipi Landhelgisgæslunnar.
Stefnt er fara í ferðina seinnihluta júní mánaðar 2023 með fyrirvara um veður og verkefni varðskips.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkja styrkbeiðni um hreinsun á Hornströndum sumarið 2023 enda sé gert ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlun 2023.