Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum á miðvikudaginn að fela starfsmanni nefndarinnar að gera nýjan samning við Félag refa- og minkaveiðimanna og við Búnaðarfélagið Bjarma. Verður fyrirkomulagið því með sama sniði og verið hefur undanfarin ár.
Formaður nefndarinnar Nanný Arna Guðmundsdóttir lagði fram formlega tillögu um að frekari ákvörðunum um málið verði vísað til bæjarráðs með þeim rökum að stór hluti nefndarmanna væri vanhæfur.
Tillagan kom ekki til afgreiðslu þar sem nefndin ákvað sem fyrr segir að gera nýjan samning. Fjórir nefndarmenn af fimm voru á fundinum og einn þeirra Valur Richter vék af fundi vegna vanhæfis, en hann er í hópi þeirra sem vinna dýrin.
Þeir þrír nefndarmenn sem voru eftir á fundinum og afgreiddu málið voru Þorbjörn H. Jóhannesson, Gunnar Bjarnason í stað Dagnýjar Finnbjörnsdóttur og Nanný Arna Guðmundsdóttir. Fimmti nefndarmaðurinn Bernharður Guðmundsson var fjarverandi.
Í síðasta mánuði var rætt minnisblað um refa- og minkaveiðar frá verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði þar sem segir að færa megi rök fyrir því að ekki sé hægt að sýna fram á þörf á veiðum í sveitarfélaginu að svo stöddu. Verkefnisstjórinn telur að skilgreina verði betur hver markmið veiðanna eru og hvernig þeim markmiðum verði best náð.
Ísafjarðarbær greiðir ríflega þrjár milljónir króna á ári í refa- og minkaeyðingu samkvæmt samningum við Félag refa- og minkaveiðimanna og Búnaðarfélagið Bjarma. Samningarnir eru gerðir til eins árs í senn.