Í- listinn: var samið um að Arna Lára hætti sem bæjarfulltrúi?

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Kristján Andri Guðjónsson, formaður uppstillingarnefndar Í listans og Guðjón M. Þorsteinsson fóru þess á leit við Þorbjörn H. Jóhannesson fyrrverandi bæjarverkstjóra að hann tæki 6. sæti á lista Í listans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Þorbjörn staðfestir þetta í samtali við Bæjarins besta en segist hafa svarað því til að hann vildi 5. sætið, sem var baráttusæti listans, enda fengi listinn hreinan meirihluta ef það ynnist, sem svo varð.

Þorbjörn segir að þeir hafi komið síðar aftur með það tilboð að hann tæki 6. sætið en Arna Lára Jónsdóttir yrði í 5. sæti, en ef meirihlutinn ynnist í kosningunum og Arna Lára yrði bæjarstjóri myndi hún stíga til hliðar sem bæjarfulltrúi og Þorbjörn tæki við. Þorbjörn kvaðst hafa gengið að þessu.

Guðjón M. Þorsteinsson staðfestir þetta við Bæjarins besta. Sagði hann að vanefndir á þessu samkomulagi væri ástæða þess að hann væri hættur að starfa innan Í listans.

Kristján Andri Guðjónsson segir þetta hafi verið rætt en engir skilmálar eða kvaðir hefði verið samþykktir. Það væri í höndum bæjarfulltrúa hvort þeir segi af sér eða ekki. Hann sagði að þetta hefði ekki verið borið undir Örnu Láru.

Karen Gísladóttir átti sæti í uppstillingarnefndinni. Hún sagði að eitthvað hefði verið rætt um hrókeringar en hún myndi ekki hvort þetta fyrirkomulag hefði verið rætt né hvernig niðurstaðan hefði verið.

Valur Richter átti sæti á Í listanum og var í 10. sæti. Hann kannaðist við þessa lýsingu og sagði það sinn skilning og flestra í kringum sig að um þetta hefði verið samkomulag. Hins vegar hefði hann ekki komið að viðræðum og væri ekki beint vitni.

Leitað var viðbragða Örnu Láru Jónsdóttur og sagði hún að „eins og gengur og gerist í störfum uppstillingarnefnda þá hafa án efa verið ræddir ýmsir möguleikar. Hvað mitt framboð varðar þá hefði aldrei komið til greina að ég myndi hætta sem bæjarfulltrúi ef Í-listinn næði meirihluta, því þá væri ég að ganga að baka orða minna við það fólk sem ég aflaði stuðnings hjá.“  

DEILA