Hvalárvirkjun: framkvæmdir gætu hafist eftir 4 ár

Hvalárvirkjun er stærsta virkjunin á Vestfjörðum sem er í undirbúningi.

Það er mat Ásbjarnar Blöndal,  framkvæmdastjóra þróunar- og auðlindarsviðs, HS orku og jafnframt stjórnarformanns Vesturverks ehf að framkvæmdir við Hvalárvirkjun gætu hafist eftir 4 – 6 ár og að þeim yrði lokið þremur árum síðar. Mögulegt er því að raforkuframleiðsla gæti hafist á árinu 2030.

Þetta kom fram á Orkuþingi Vestfjarða 2023 sem haldið var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á miðvikudaginn.

Vesturverk ehf , sem að 80% er í eigu HS Orku hf og 20% í eigu Glámu fjárfestingar slhf hefur á síðustu árum varið um 700 m.kr. í verkefni á Vestfjörðum, einkum Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun.

Staðan á Hvalárvirkjunarverkefni er sú að samið hefur verið við landeigendur um nýtingu Engjaness og Ófeigsfjarðar, Hvalárvirkjun er öðru sinni í nýtingarflokki í nýsamþykktri rammaáætlun, frumhönnun liggur fyrir, mati á umhverfisáhrifum er lokið, virkjun hefur verið skilgreind í aðalskipulagi Árneshrepps, tengipunktur Landsnets hefur verið skilgreindur við innanvert Ísafjarðardjúp. Árvissar rannsóknir á vatnasviðum eru enn í gangi. Óvissa er um eignarhald á vatnsréttindum vegna kröfu ríkisins um að hluti af Ófeigsfjarðarheiði verði þjóðlenda eins og greint var frá á Bæjarins besta í gær. Búist er við því að Óbyggðanefnd úrskurði um það í haust.

Skipulagsstofnun mælist til þess að skipulags- og leyfisveitingar beggja framkvæmdanna, Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun verði afgreiddar samhliða.

Ásbjörn Blöndal áætlar að breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulag taki eitt ár og það taki 1 – 2 ár að afla virkjunar- og framkvæmdaleyfis. Það gæti að hluta verið unnið samhliða skipulagsbreytingunum. Þá muni fjármögnun og fullnaðarhönnun, á undirbúningstíma taka 2 – 3 ár, að hluta til samhliða. Samtals tæki þetta ferli 4 – 6 ár. Þá gætu framkvæmdir hafist og tækju 3 ár.

Hann taldi að Landsnet þyrfti svipaða tíma til þess að vinna sinn hluta af verkinu, sem er að tengja virkjunina við raforkukerfi landsins. Fyrst væri almennur undirbúningur, samskipti við hagsmunaaðila, sveitarstjórnir, landeigendur. Síðan tæki við vinna við leiðaval, umhverfisrannsóknir, umhverfismat, o.fl. sem tækju að lágmarki um 2 – 3 ár. Línubygging : Slóðagerð, kapallögn, reising og strenging o.fl. tækju 2 – 3 ár eftir samþykkt á framkvæmdaleyfi. Samtals væri tímarammi Landsnets 4 – 6 ár.

Vesturverk myndi greiða tengigjald fyrir að fá tenginguna við raforkukerfið. Tengigjald VesturVerks til Landsnets er áætlað um 2.900 mkr.

DEILA