Ágæt þátttaka var í árlegri helgigöngu Holtsprestakalli, hinu forna á föstudaginn langa. Gengið var frá kirkjunni í Valþjófsdal í Önundarfirði að Holti.
Að sögn Fjölnis Ásbjörnssonar var fyrsta helgigangan haldin í Önundarfirði, á föstudaginn langa árið 2005 , og hafa þær verið árlegur viðburður og aldrei fallið niður. Það var sr. Stína Gísladóttir sem þá var sóknarprestur í Holti sem átti heiðurinn af því að hrinda af stað þessum lið í helgihaldi í firðinum. Fyrsta árið var gengið frá Flateyrarkirkju til Holtskirkju sem er um 10 kílómetra leið, árið eftir var gengið frá Kirkjubóli í Valþjófsdal til Holtskirkju um 7 kílómetra leið. Frá upphafi hafa þessar leiðir verið gengnar til skiptis.
Í upphafi göngunnar var helgistund í Valþjófsdal og lesið úr píslarsögunni og þegar komið var í Holt var lokið lestrinum úr píslarsögunni.
Sr. Fjölnir sagði að aðeins einu sinni hefðu verið fleiri þátttakendur í göngunni en nú þrátt fyrir slæmt veður.
Gangan hefur verið farin sautján sinnum og í ýmsum veðrum en aldrei fallið niður þó að nokkrum sinnum hafi þurft að bregða út af venjunni, til dæmis var einu sinni ófært með öllu í Valþjófsdal, þá var brugðið á það ráð að ganga frá Holtskirkju áleiðis í Valþjófsdal og snúa síðan við hjá Ófærunni, sem svo er nefnd, sem er um það bil miðja leið á milli Holtskirkju og Valþjófsdals. Árið 2020 var samkomubann og gekk sr. Fjölnir Ásbjörnsson þáverandi sóknarprestur þá einn og streymdi göngunni í gegnum Facebook. Sama fyrirkomulag var árið 2021 en þá voru ekki eins miklar takmarkanir og gekk þá gekk sr. Fjölnir ásamt tveimur sóknarbörnum og var göngunni streymt í gegnum netið.
„Það er von okkar sem stöndum að göngunni og öðru helgihaldi í Önundarfirði að þessi ganga verði fastur liður um ókomin ár og haldi áfram að glæða og dýpka trúarupplifun þátttakenda sagði“ sr. Fjölnir að lokum.