Dynjandi: þrír útsýnispallar í ár

Afstöðumynd af útsýnispalli 4 við Stromp.

Núna í ár eru áætlaðar framkvæmdir við útsýnispalla Ú3, Ú4 og Ú5 við Dynjana samkvæmt framkvæmdaáætlun sem birt var 2015 og vinna átti á árunum 2016-2020 að því er fram kemur í svörum Katrínar Karlsdóttur, verkefnisstjóra hjá Umhverfistofnun.

Framkvæmdasýslan auglýsir útboð fyrir þær framkvæmdir á allra næstu vikum. Kostnaðaráætlun er trúnaðarmál þar til tilboð í framkvæmdina hafa verið opnuð.

Katrín segir að frá því verndaráætlun Dynjanda var í vinnslu fyrir tæpum áratug hafi forsendur breyst nokkuð afgerandi. Gestakomur hafa aukist og heimsóknartímabil lengst bæði að vori og hausti. Umhverfisstofnun telur að fara þurfi í öflugri uppbyggingu á þeim hluta gönguleiðarinnar sem flokkast sem náttúrustígur en lagt var upp með þegar umrædd framkvæmdaáætlun var gefin út (frá útsýnispalli við Hrísvaðsfoss að Dynjanda). Hluti af stígnum fellur undir Ú3 þar eð sá pallur verður ekki eiginlegur pallur heldur svæði við göngustíginn en stofnunin gerir ráð fyrir að uppbygging á náttúrustígnum komi í framhaldi af uppsetningu útsýnispalla, svo framarlega að fjármagn til framkvæmda verði aðgengilegt.  

Staðan á framkvæmdaáætlun vegna Dynjanda er eftirfarandi:

Árlega er unnið að smáviðhaldi göngustíga og -þrepa eftir föngum ásamt því að eyða ummerkjum villustíga og endurheimta gróður.

2016 – öllum aðgerðum lokið

2017 – öllum aðgerðum lokið fyrir utan smíði og uppsetningu á útsýnispöllum Ú3, Ú4 og Ú5.

2018 –2020 bygging salernishúss, uppsetning rotþróar og siturlagna er lokið.

Viðhald og uppbygging göngustíga að fossinum Dynjanda og uppbygging og viðhald á steinþrepum er ekki lokið en fellur að einhverju leyti undir það smáviðhald sem viðhaft er árlega á göngustígnum við fossaröðina.

DEILA