Drimla: heitir nýja laxasláturhúsið

Arctic Fish hefur ákveðið að nýja laxasláturhúsið í Bolungavík heitir Drimla. Nafnið er sótt í þekkt örnefni á hafnarsvæðinu í Bolungavík en Drimla var lítil tjörn rétt ofan við verbúðirnar sem stóðu á Kambinum við fjöruborðið.

Þetta kom fram á kynningarfundi Arctic Fish í Bolungavík sem haldinn var á mánudaginn.

Sláturhúsið er samtals 2.700 fermetrar að gólfflatarmáli og með millilofti 5.200 fermetrar. Í framleiðslulínunni eru fjögurra rása sláturstuðarar, blóðgunar- og kælitankar, slægingarvélar, tveggja línu samvals flokkari, ísframleiðsluvél sem afkastar 35 tonnum á sólarhring, sjálfvirk pökkunarlína, tveir róbótar, kælilager og kassalager.

Framleiðslugetan í byrjun verður 25 þúsund tonn á ári miðað við eina átta klst vakt. Hægt verður að auka afköstin upp í 50 þúsund tonn á ári án þess að stækka húsið.

Þörf verður á 25-30 starfsmönnum í byrjun.

Heildarkostnaður við húsið er um 4 milljarðar króna.

Byggingarframkvæmdir eru samkvæmt áætlun. Prufukeyrsla verða í júní og afköstin aukin í júlí.

Myndir: Arctic Fish.

DEILA