Bolungavík: Útsýnispallurinn nefndur Framúrskarandi Bolafjall

Á íbúafundi í félagsheimili Bolungarvíkur í gær var kynntur afrakstur stefnumótunarvinnu fyrir útsýnispallin á Bolafjalli auk vörumerkis fyrir áfangastaðinn. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, fékk ráðgjafafyrirtækið Cohn & Wolfe á Íslandi í samstari við Vestfjarðastofu til að vinna stefnumótunina og kynnti framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Ingvar Örn Ingvarsson, vörumerkið og stefnuna fyrir íbúum.

Bolafjall er 638 metra hátt fjall með útsýnispalli fyrir ofan Bolungarvík en pallurinn sjálfur er í 630 metra hæð en hann var opnaður í júlí síðasta sumar. Pallurinn var hannaður af Aðalheiði E. Kristjánsdóttur, Jóhanni S. Péturssyni (Landmótun) og Einari Hlér & ShruthiBasappa  (sei arkitektar) en burðarþolsmatið var í höndum Eflu.

Ákveðið hefur verið að merki útsýnispallsins verði Framúrskarandi Bolafjall/Outstanding Bolafjall og verði heitið notað jöfnum höndum á ensku og íslensku og ennfremur tengt við þjónustu í nærsamfélaginu samkvæmt stefnumótuninni.

Stefnumótunin gerir þannig ráð fyrir að innviðir og aðgengi verði forsendur úrræða sem byggi á viðskiptalega sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðinu og að sameiginleg gæði verði mörkuð á grunni vörumerkisins „Outstanding Bolafjall“. Stefnan felur í sér að áfangastaðurinn verður að hafa sjálfsstæða tekjustrauma sem veitt er til uppbyggingar og mun sveitarfélagið í framhaldinu einhenda sér í þá vinnu.

„Við höfum fulla trú á að Outstanding Bolafjall verði einn af fimm megin seglum Íslands í augum erlendra ferðamanna þegar fram í sækir. Svæðið hér hjá okkur nýtur þegar mikilla vinsælda, fullbókað er í Ósvör í sumar og ljóst að með útsýnispallinum og gjaldtöku á honum erum við að skapa áður óséð tækifæri fyrir nágrenni Bolungarvíkur og samfélagið hér,“ segir Jón Páll bæjarstjóri.



Framhald verður á framkvæmdum í sumar þar sem lögð verða bílastæði, stígar, hvíldarstæði og umhverfið fegrað.

DEILA