Blámi: ein Mjólkárvirkjun í rafvæðingu báta og skipa

Mynd úr skýrslunni.

Blámi, samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar og Vestfjarðastofu, hefur lagt mat á áhrif orkuskipta á hafnasvæði á Vestfjörðum.

Í skýrslu Bláma er leitast við að greina áhrif orkuskipta á helstu hafnir á Vestfjörðum með tilliti til raforkuþarfar
og hvenær bátar og skip sem knúin verða vistvænni orku verða tekin í notkun. Í skýrslunni er gert ráð fyrir
að fjöldi báta og skipa verði sá sami fram til ársins 2040 en að orkugjafi breytist. Skýrslan tekur aðeins til
báta og skipa sem munu líklega nota beina raforku eða rafhlöður sem hlaðnar verða í landi og að fullum
orkuskiptum verði náð árið 2040.

Sviðsmyndagreiningin í skýrslunni byggir annarsvegar á raforkuþörf (kWh) hvers notanda og hversu mikið afl (kW) hver notandi þarf þegar rafhlöður eru hlaðnar eða þegar notandi er tengdur landstraum. Niðurstaðan er sú að raforkuþörf á hafnarsvæðum mun aukast verulega á næstu árum samhliða rafvæðingu báta og smærri skipa.

Aukin eftirspurn eftir raforku á hafnarsvæðum mun hafa töluverð áhrif á heildareftirspurn eftir raforku á Vestfjörðum. Árið 2030 mun mögulegur afltoppur vegna rafvæðingar báta og skipa á Vestfjörðum geta orðið 5,4 MW og árið 2040 má gera ráð fyrir mögulegum afltoppi upp á 12,7 MW Til samanburðar er uppsett afl Mjólkárvirkjunar sem er stærsta
vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum um 12 MW.

Niðurstaðan byggir á því að fullum orkuskiptum verði náð ári 2040.

Höfundar skýrslunnar eru Anna María Daníelsdóttir, Tinna Rún Snorradóttir og Þorsteinn Másson.

Verkefnið var eitt af áhersluverkefnum Vestfjarðastofu fyrir árið 2022 en verkefnið hlaut 6.000.000 kr framlag úr Sóknaráætlun.

DEILA