Fyrirtækið Búbíl á Bíldudal hefur spurst fyrir hjá Vesturbyggð hvort að heimild fáist fyrir afnot að svæði yst við Tjarnarbraut og Lönguhlíð á Bíldudal. Hugmyndin er að staðsetja átta stakstæð hús sem hugsuð eru til útleigu fyrir ferðamenn.
Svæðið er í dag skilgreint skv. aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 sem íbúðarsvæði ÍB16. Svæðið liggur á skilgreindu hættusvæði B skv. ofanflóðahættumati.
Skipulags- og umhverfisráð tók erindið fyrir á 105. fundi sínum og tók jákvætt í erindið en vakti athygli umsækjenda á að áformin eru háð aðalskipulagsbreytingu sem og deiliskipulagningu svæðisins.
Skipulags- og umhverfisráð vísaði erindinu áfram til bæjarráðs sem tók vel í erindið og fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.
Fyrirtækið Búbíl ehf. á og rekur Gistihúsið við höfnina á Bíldudal og hafa eigendur fyrirtækisins áhuga á að bæta við framboð á gistimöguleikum í þorpinu.
Hugmynd er að staðsetja átta stakstæð hús sem hugsuð eru til útleigu fyrir ferðamenn. Þau myndu annars vegar standa við Tjarnarbraut (svæði 1) hins vegar við Lönguhlíð (svæði 2) á Bíldudal. Þrjú þeirra myndu vera staðsett við Tjarnarbraut og fylla þannig upp bilið í götumyndinni, en hin fimm eru staðsett ofar í hlíðinni með aðgengi frá Lönguhlíð.
Aðgengi að húsunum yrði annars vegar frá Tjarnarbraut og hins vegar Lönguhlíð.