Vesturbyggð með þjón­ustu­samn­ing við Samtökin ’78

Þórdís Sif Sigurðardóttir og Daníel Arnarsson undirrituðu samninginn.

Þórdís Sif Sigurð­ar­dóttir, bæjar­stjóri, og Daníel Arnarsson, fram­kvæmda­stjóri Samtak­anna ’78, undir­rituðu þjón­ustu­samning í Skjald­borg­ar­bíói í gær.

Síðastliðið haust spannst mikil samfélagsleg umræða um stöðu hinsegin málefna á Íslandi eftir umfjöllun Kveiks um áreiti og ofbeldi gegn hinsegin börnum og ungmennum. Í kjölfarið áttu Vesturbyggð og Samtökin ’78 samtal og ákveðið var að gera samstarfssamning til þriggja ára í þeim tilgangi að standa vörð um mannréttindi allra íbúa, þar með talið hinsegin barna og ungmenna. Í samningnum felst að Samtökin munu veita fræðslu til:

  • starfsfólks grunn- og leikskólanna
  • nemenda grunnskólanna
  • stjórnenda hjá sveitarfélaginu
  • þjálfara og starfsfólks íþrótta-, félags- og frístundastarfs
  • íbúa á opnum fræðslufundum

Auk þess munu allir íbúar fá aðgang að ráðgjöf Samtakanna ’78 án endurgjalds og sveitarfélagið fær aðstoð við gerð aðgerðaráætlunar um hvernig skuli tekið á ofbeldi, einelti og hatursorðræðu í stofnunum sveitarfélagsins.

Áður en samningurinn var undirritaður fræddi Daníel Arnarsson viðstadda um hinsegin málefni og svaraði spurningum. Þá kom hann einnig við í grunnskólum sveitarfélagsins og fræddi nemendur. Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri tók svo til orða að þessu tilefni:

Við þurfum fræðslu bæði til að við vitum öll og virðum að við megum vera eins og við erum, að vera hinsegin er eitt af því. Við erum öll jöfn og höfum öll sömu réttindi, eins og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna ber með sér. Ég skrifa því full stolts undir þennan samstarfssamning og vonast til að þið sem eruð hér með okkur í dag leggið ykkar lóð á vogarskálarnar til að bæta mannréttindi allra í samfélaginu okkar.

DEILA