Vestfirðir: olíunotkun fjarvarmaveitna 2,1 milljón lítrar í fyrra

Fram kemur í fundargerð stjórnar Vestfjarðastofu í janúar að olíunotkun fjarvarmaveitna á Vestfjörðum jókst úr 210 þúsund lítrum í 2,1 milljón lítra milli áranna 2021 og 2022. Er það tíföldun á olímagni milli ára.

Stjórnin fagnar því að Alþingi hafi við afgreiðslu fjárlaga fyrir 2023 samþykkt 150 milljóna króna fjárveitingu til jarðhitaleitar. Segir í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis að aukin jarðhitaleit og nýting jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar sé ein mikilvæg leið að því markmiði að ná fram kolefnishlutleysi. Ef góður árangur næst væri hægt að minnka notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar, sem og nýta raforku sem losnar til annarra nota.

Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatn sem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar. 

Stjórn Vestfjarðastofu minnir á að tillaga um 150 milljóna króna fjárveitingu til jarðhitaleitar hafi komið fram í áliti starfshóps umhverfis- orku og loftlagsráðherra um orkumál á Vestfjörðum.

Stjórnin áréttar „að jarðhitaleit á Vestfjörðum er mikilvægur þáttur í lausn á afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og brýnt byggða- og loftslagsmál. Á Vestfjörðum eru rafkyntar fjarvarmaveitur reknar til húshitunar og nýta til þess skerðanlega orku. Í rekstri þeirra er afhendingaröryggi raforku lykilþáttur, en vanbúið flutningskerfi og takmörkun á afhendingu skerðanlegrar orku frá Landsvirkjun á síðasta ári, leiddu til þess að olíunotkun fjarvarmaveitna á
Vestfjörðum jókst úr 210 þúsund lítrum í 2,1 milljón lítra milli áranna 2021 og 2022.“

Gefi jarðhitaleit jákvæða niðurstöðu þá eykst rekstraröryggi fjarvarmaveitna samtímis sem sparnaður er í olíunotkun og því mikilvægt loftlagsmál. Jarðhiti skapar einnig ný tækifæri í uppbyggingu atvinnu á svæðum með einhæft atvinnulíf segir í bókun stjórnar Vestfjarðastofu.

DEILA