Í Silfrinu á Ríkisútvarpinu í gær voru höfundar umdeildrar bókar um laxeldi og kynntu efni hennar. Ríkisútvarpið kynnir þau á eftirfarandi hátt:
„Þau hafa bæði áratuga reynslu úr blaðamennsku. Collins hefur unnið fyrir fjölmarga miðla og sérhæfir sig í vísindum og umhverfismálum. Frantz hefur til að mynda verið blaðamaður og ritstjóri hjá New York Times, Los Angeles, Washington Post og Chicago Tribune. Þau Collins og Frantz eru nýbúin að gefa út bók um uppgang laxeldis í sjó og ræddu innihald hennar við Egil Helgason.“
Það fór ekki á milli mála að boðskapur þeirra er að banna eigi sjókvíaeldi ekki bara í Bandaríkjunum heldur um allan heim.
Það kom hins vegar ekki fram í þættinum að bókin og grein sem höfundar skrifuðu í bandaríska tímaritið Time Magazine til þess að fylgja bókinni eftir eru mjög umdeild og hafa höfundar verið sakaðir um alvarlegar staðreyndavillur. Það er mjög sérstakt að stjórnandi þáttarins skuli ekki hafa gert grein fyrir þessu og spurt höfunda um svör þeirra við gagnrýninni. Í umræðu um mál sem þetta er nauðsynlegt að draga fram eftir föngum staðreyndir og einnig hvaða atriði eru umdeild og kalla eftir rökstuðningi frá báðum hliðum um þau atriði. Það var ekki gert. Egill hafði engar spurningar til höfunda um efni bókarinnar og gagnrýni sem komið hefur fram.
Egill Helgason og RÚV gerðu umfjöllunina að einhliða málflutningi gegn laxeldi í sjó. Það er alvarlegt mál.
Bókin er reyndar ekki ný af nálinni. Hún kom út í júlí á síðasta ári. Salmon Wars: The Dark Underbelly of Our Favorite Fish heitir bókin. Sterk viðbrögð hafa komið fram við efni bókarinnar og greininni í kjölfarið. Fiskeldi er víðar umdeilt en á Íslandi og það á við um Bandaríkin og Kanada.
Samtök eldisframleiðenda í Kanada skrifuðu þegar grein til varnar eldinu og drögu fram 10 ásakanir og mistúlkanir sem fram koma í bókinni sem þau segja að séu rangar. Er það þeirra dómur að í bókinni sé lítið annað en endurtekning á villandi fullyrðingum og úreltum uppýsingum.
Sambærileg samtök í Bandaríkjunum eru National Aquaculture Association og forseti þeirra Sebastian Belle gagnrýnir einnig efni bókarinnar og greinarinnar í Time Magazine fyrir rangfærslur. Hann segir reyndar að fram fari áróðurstríð gegn fiskeldi og nefnir til fleiri tilvik þar um.
Þar sem bókin er ekki ný og þegar hafa komið fram viðbrögð við henni var RÚV og Agli Helgasyni í lófa lagið að gera grein fyrir báðum hliðum og leitast við að draga fram helstu efnisatriðin. Það var ekki gert. Það var ekki sagt frá því að framlag höfunda væri umdeilt. Þau voru ekki spurð um svör við framkominni gagnrýni.
Það er enn hægt að bæta úr og halda áfram umfjölluninni um bókina og málflutning Franz og Collins. En þá verður Egill Helgason að kynna sér málið og hafa einhverjar forsendur til þess að stjórna umræðunni og það sem er lykilatriðið að fá svör þeirra sem til svara eru fyrir atvinnugreinina.
Til fróðleiks eru hér nefnd nokkur atriði í gagnrýni kanadísku og bandarísku framleiðendanna:
- Fullyrt er að eldisfiskurinn sé í einni kös í kvíunum. Þéttleikin sé svo mikill að það jafngildi 27 fullvöxnum löxum í baðkari.
Svör: Fiskur er í 2,5 – 4% af rúmmáli kvíarinnar. Það jafngildi um hálfum laxi í baðkari.
2. Dælt sé sýklalyfjum í eldisfiskinn.
Svör: Lítið sem ekkert er notað af sýklalyfjum. Við laxeldi er notað minna af sýklalyfjum en í nokkurri annarri próteinframleiddri landbúnaðarvöru (agricultural animal producing) sem fæst í matvörubúð.
3. Fullyrt er að í eldislaxi sé hættulegt magn af PCB og öðrum uppsöfnuðum eiturefnum.öll.
Svör: PCB er í allri fæðu, en magnið í eldislaxi er minna en í allri almennri fæðu eins og nautakjöti, kjúklingum, eggjum og smjöri og veldur ekki neinum skaða. Vísað er í eftirlitstofnanir bæði í Kanada og Bandaríkjunum því til stuðnings.
4. Fullyrt er að afföll í eldi séu 15-20% meðan þau eru aðeins 5% í kjúklingarækt.
Svör: Fimmtán prósent afföll þýðir að 85% af eldislaxi nær sláturstærð eftir ca 2 ár. Í náttúrunni eru aðeins 5% af laxi sem koma til hrygingar eftir 2 ár. Líftími kjúklinga eru 2 mánuðir svo það er ekki samanburðarhæft við laxinn.
Kanadísku samtökin segja að lokum í sinni umsögn um bókina að höfundar geri enga tilraun til þess að greina frá breytingum og framförum sem orðið hafa í fiskeldinu en haldi sig þess í stað við úreltar upplýsingar og gamlar staðhæfingar sem eigi á engan hátt við lengur.
Þetta liggur allt fyrir og stjórnendur RÚV hefðu eðlilega átt að miða efnistök á málefninu við það. Það hefði getað orðið upplýsandi fyrir áhorfendur. Fyrst höfundarnir voru komnir til landsins ( í boði hverra?) og gáfu kost á viðtali var einstakt tækifæri að spyrja þau um eigin fullyrðingar og um framkomna gagnrýni.
En þess í stað var valið að gera áróðursefni á kostnað skattgreiðenda.
-k