Samfylkingin: opnir fundir á norðanverðum Vestfjörðum

Samfylkingin efnir til tveggja opinna funda í vikunni á Ísafirði og í Bolungavík. Ætlunin var að halda fundina í byrjun febrúar en vegna veðurs varð að fresta þeim.

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar verður framsögumaður á fundunum. Fyrri fundurinn verður annað kvöld í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og hefst kl 20. Seinni fundurinn verður í Bolungavík í Einarshúsi á föstudaginn og hefst kl 12.

Samfylkingin hélt flokksstjórnarfund um síðustu helgi og í ályktun fundarins segir „að Samfylkingin stefnir í ríkisstjórn og fyrir því er aðeins ein ástæða: Verkefnin sem kalla. Eftir óslitinn áratug af hægristefnu í efnahags- og velferðarmálum blasa hvarvetna við okkur verkefni sem kalla á klassískar lausnir jafnaðarfólks og sem kalla á okkur sósíaldemókrata til verka.

Við viljum að fólk geti lifað sómasamlegu lífi af laununum sínum, búið við öryggi á húsnæðismarkaði og sótt sér heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki þegar eitthvað kemur upp á.

Höfuðverkefni næstu ára verður að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. Það er okkar pólitíska sannfæring og lykillinn að því að ná aftur stjórn á þróun efnahagsmála, verðbólgu og vöxtum, í breiðri sátt við verkalýðshreyfingu og atvinnulíf.“

DEILA